136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

skýrsla fjármálanefndar breska þingsins um áhrif aðgerða bresku stjórnarinnar á fall íslensku bankanna.

[15:25]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Sú skýrsla sem við erum að fjalla um er um margt mjög athyglisverð og mikilvæg fyrir Ísland þó að hún sé ekki gallalaus. Það eru fimm atriði sem ég vil vekja sérstaka athygli á, í fyrsta lagi því að beiting hryðjuverkalaganna að áliti fjármálanefndar breska þingsins var allt of harkaleg aðgerð miðað við þá stöðu sem uppi var á þeim tíma. Bresk stjórnvöld urðu virkir gerendur í þróun kreppunnar fyrir vikið og bera þar af leiðandi ábyrgð á neikvæðum áhrifum af gerðum þeirra á þróun mála á Íslandi.

Í öðru lagi vísar fjármálanefndin á bug skýringum breska fjármálaráðherrans um ástæður þess að lögunum var beitt, þ.e. að íslensk stjórnvöld, íslenski fjármálaráðherrann, á þeim tíma ég, hefði haldið því fram að Ísland ætlaði ekki að borga. Þvert á móti segir nefndin að ég hafi sagt hið gagnstæða.

Í þriðja lagi telur nefndin að ummæli breska fjármálaráðherrans hafi haft verulega neikvæð áhrif á stöðu og þróun mála hjá Kaupþingi þó að þeir segist ekki hafa séð gögn sem sýni fram á að Kaupþing hafi getað lifað af þessar hremmingar. Spurningin er: Leitaði nefndin eftir þessum gögnum? Að minnsta kosti hafði hún ekki samband við íslenska aðila.

Í fjórða lagi kemur fram í skýrslu nefndarinnar að fjármálaeftirlit eyjanna Manar og Guernsey kvarti yfir samskiptum við breska fjármálaeftirlitið um málefni Kaupþings og segi að þau hafi verið allt önnur en þegar um var að ræða aðra breska banka, svo sem Bradford & Bingley og Northern Rock.

Í fimmta lagi er ljóst af umfjöllun nefndarinnar að hinu evrópska regluverki var áfátt og á slíkum mistökum eiga menn að bera sameiginlega ábyrgð. Það er því ljóst af öllu þessu að þetta mun styrkja málstað þeirra íslensku aðila sem reka mál fyrir breskum dómstólum, þetta á að auðvelda það að hrinda áhrifum hryðjuverkalaganna og það sem er mikilvægast (Forseti hringir.) að það hjálpi okkur í því að styrkja stöðu Íslands í samningunum um Icesave.