136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

skýrsla fjármálanefndar breska þingsins um áhrif aðgerða bresku stjórnarinnar á fall íslensku bankanna.

[15:39]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér mikilvægt mál og það er fagnaðarefni að forseti hliðri dagskrá þingsins til þess að það fáist rætt og væri óskandi að forseti hefði sama umburðarlyndi gagnvart öðrum mikilvægum málum eins og greiðsluaðlögun fyrir heimilin. (Gripið fram í.) Skýrsla fjárlaganefndar neðri deildar breska þingsins sem hér er til umfjöllunar felur í sér mikinn sigur fyrir íslensku þjóðina og þann málstað sem við höfum haldið uppi varðandi óréttmæti þess að bresk stjórnvöld skyldu leyfa sér að beita íslensk fyrirtæki og íslenska hagsmuni hryðjuverkalögum.

Innihaldi þessarar skýrslu hefur verið lýst hér ágætlega og ég ætla ekki að endurtaka þá lýsingu. Skýrsla nefndarinnar er að mínu mati þungur áfellisdómur yfir breskum stjórnvöldum og sérstaklega fjármálaráðherranum Alistair Darling. Það er auðvitað stórmál þegar þingnefnd gagnrýnir eigin ráðherra með svo alvarlegum hætti. Það er að mínu mati skylda íslenskra stjórnvalda að nýta sér efni þessarar skýrslu til fulls og nota hana í þágu hagsmuna okkar. En því miður virðist mér lítið liggja fyrir um hvað ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra hyggjast fyrir og ég hef efasemdir um að ríkisstjórnin hafi burði til þess að taka á þessu máli með viðeigandi hætti. Með fullri virðingu fyrir samninganefndinni sem skipuð hefur verið vegna Icesave-deilunnar og Svavari Gestssyni, tel ég einsýnt að ræða verði málið á æðstu stigum. Við megum ekki gleyma því að íslensk fyrirtæki eru enn þá undir hryðjuverkalögunum.

Hæstv. forsætisráðherra Íslands þarf tafarlaust að óska eftir viðræðum við Gordon Brown, veifa þessari skýrslu og krefjast svara við því hvernig breska ríkið hyggst bæta ráð sitt gagnvart okkur Íslendingum. Það þarf jafnframt að taka málið upp við leiðtoga Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Tjón okkar Íslendinga af framferði Breta er gríðarlegt, bæði í fjárhagslegu og ímyndarlegu tilliti, meðferð Breta á okkur Íslendingum særir stolt þjóðarinnar og sjálfsmynd okkar (Forseti hringir.) enda vorum við brennimerkt sem hryðjuverkamenn, eins og segir í skýrslunni. Nú dugar ekkert (Forseti hringir.) kurteisishjal, herra forseti, ríkisstjórnin þarf að grípa tafarlaust til aðgerða.