136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

skýrsla fjármálanefndar breska þingsins um áhrif aðgerða bresku stjórnarinnar á fall íslensku bankanna.

[15:41]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristrúnu Heimisdóttur fyrir að taka þetta mál upp á vettvangi þingsins. Hér er um að ræða eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar á þessari stundu og mikilvægt að við fáum botn í það hið allra fyrsta.

Það er stórfrétt fyrir íslensk stjórnvöld að skýrsla fjárlaganefndar neðri deildar breska þingsins skuli hljóða á þessa leið þar sem því er lýst að breska ríkisstjórnin var gerandi á alþjóðafjármálamarkaði með beitingu hryðjuverkalaga gagnvart okkur Íslendingum. Beiting hryðjuverkalaganna hefur haft gríðarleg áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar, á atvinnulíf þjóðarinnar, á heimilin í landinu. Árás Bretlands á íslenskt efnahagslíf er grafalvarlegt mál og því er mikilvægt að stjórnvöld okkar og ríkisstjórn beiti þessari skýrslu fyrir sig sem er áfellisdómur yfir bresku ríkisstjórninni og því hvernig hún misbeitti valdi sínu gagnvart lítilli þjóð norður í hafi.

Við þurfum, herra forseti, að steyta hnefann núna, við þurfum að tala máli þjóðarinnar í ljósi þessarar skýrslu og við þurfum að sækja fram. Við skulum hafa það í huga að grasrótarhreyfing Íslendinga, Indefence, hefur verið til mikillar fyrirmyndar, hún hefur sótt fram, safnað undirskriftum og farið og hitt breska þingmenn. Ég hef talið það fram á þennan dag að fyrri ríkisstjórn hafi ekki staðið sig nægilega vel þegar kom að því að verja hagsmuni og kynna málstað Íslendinga á erlendri grundu. Við þurfum að huga vel að því, við þurfum að styrkja málefnastöðu okkar og við þurfum að nýta þá skýrslu sem við ræðum hér okkur öllum til framdráttar vegna þess að við ræðum hér eitt stærsta (Forseti hringir.) og mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar í dag.