136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

skýrsla fjármálanefndar breska þingsins um áhrif aðgerða bresku stjórnarinnar á fall íslensku bankanna.

[15:45]
Horfa

Kristrún Heimisdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá góðu umræðu sem farið hefur fram í dag og mér heyrist nú að þingmenn séu allir sammála um stöðu málsins í meginatriðum.

Ég vil láta það koma fram í þessari umræðu að að mínu mati hefur margt misviturlegt verið sagt um það hvernig haldið var á málum í þessu sambandi í fyrri ríkisstjórn. Við sjáum það glöggt á ákveðnum þætti þessarar skýrslu sem varðar fyrrverandi fjármálaráðherra hæstv. og hv. þm., Árna Mathiesen.

Ég vil jafnframt segja að hv. þingmönnum og stjórnmálamönnum almennt hættir til að vanmeta mjög íslensku utanríkisþjónustuna. Það þykir þægilegt skotmark að lýsa því yfir að hana eigi að skera við trog eða reka þá kokteilpinna sem þar kunni að starfa. Af því tilefni vil ég segja að það er mín skoðun að niðurstaða þessarar bresku þingnefndar sé ekki hrein tilviljun. Fólk talar oft um nauðsyn þess að birta auglýsingar og ná einhvers konar „PR“-árangri“, svo að ég sletti nú, en raunveruleikinn er sá að góður íslenskur sendiherra hefur meiri aðgang að þingmönnum og þjóðfélagi á hverjum stað þar sem hann starfar en nokkur „PR“-skrifstofa getur haft og kostar „PR“-skrifstofan þó miklu meira en sendiherrann. Ég er þeirrar skoðunar að sendiherra Íslands í Lundúnum, sendiherra Íslands í Brussel og utanríkisþjónustan í heild hafi unnið þrekvirki í haust og tel að þá sögu eigi að segja. Ég skora hér og nú á núverandi utanríkisráðherra að opna öll gögn um þessi mál, þ.e. samskipti Íslands við önnur ríki á þessu hausti og gera þau aðgengileg sagnfræðingum, blaðamönnum og öðrum svo að fólk geti lesið þessa sögu eins og hún raunverulega er.