136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

skýrsla fjármálanefndar breska þingsins um áhrif aðgerða bresku stjórnarinnar á fall íslensku bankanna.

[15:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og fagna því að það er góður samhljómur almennt í máli þingmanna um stöðu þessa máls. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson og fleiri spurðu út í hvar nákvæmlega samningaviðræður væru á vegi staddar eða hvernig ferlið stæði nú. Það hafa verið bréfaskriftir og óformlegir fundir til undirbúnings formlegum samningafundi, fyrsta alvöru samningafundinum frá því að málið varð afvelta í desember, og ef ég man rétt er sá fundur nú þegar dagsettur eftir páska.

Utanríkisráðherra okkar átti fund með utanríkisráðherra Bretlands, eins og fram hefur komið. Ég hef átt í bréfaskriftum við fjármálaráðherra Hollands og forsætisráðherra mun nú skrifa forsætisráðherra Bretlands til að inna hann eftir viðbrögðum breskra stjórnvalda, bresku ríkisstjórnarinnar, við niðurstöðu þessarar skýrslu, svo að nokkuð sé nefnt. Það hefur því margt verið undirbúið og margt er í gangi og fram undan í þessu ferli og ég tel að hægt sé að fullyrða að það er komið í tiltölulega traustan farveg.

Hv. þingmaður spurði einnig hvað gerðist ef ríki tilkynnir um að það muni ekki ráða við skuldbindingar sínar gagnvart hlutum af því tagi sem hér eiga við og hvort slíkt hafi verið gert. Það hefur að sjálfsögðu ekki verið gert. Hitt er alveg ljóst að við höfum í höndum yfirlýsingar aðila um að taka eigi tillit til sérstakrar stöðu okkar og okkar miklu erfiðleika. Nú höfum við tvær skýrslur, annars vegar úr Evrópuverkinu sjálfu, Larosière-skýrsluna, og hins vegar þá frá breska þinginu þar sem innlánstryggingareglugerðarverkið fær áfellisdóm, sem aftur leiðir til þess að við getum reist kröfuna um að menn deili þá með sér því tjóni sem það leiðir af sér. Ég fullvissa hv. þingmenn um að þetta mál nýtur mikils forgangs í fjármálaráðuneytinu og við munum hafa allt í okkar vopnabúri sem við teljum að gagnist okkur í þessu. Ég tel að staða okkar hafi verið að styrkjast hvað varðar það að sækja fram til réttlátrar (Forseti hringir.) og sanngjarnrar niðurstöðu í þessu máli og hreinsa nafn okkar eftir því sem það verður nokkurn tíma hægt, (Forseti hringir.) svo ömurlega sem til þess var efnt í byrjun.