136. löggjafarþing — 129. fundur,  7. apr. 2009.

almennar stjórnmálaumræður.

[19:54]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Þessir síðustu dagar á Alþingi hafa verið dapurlegir. Þeir hafa verið dapurlegir vegna þess að nú hefur það gerst í fyrsta skipti í hálfa öld að reynt er að knýja fram breytingar á stjórnarskránni án þess að samstaða sé um það á Alþingi. Þetta er söguleg aðgerð og sorgleg hjá þeirri minnihlutastjórn sem nú fer með völdin í landinu.

Alþingi hefur með núverandi stjórnarflokka í fararbroddi leitað álits á stjórnarskrárfrumvarpinu og 27 hafa skilað umsögnum til Alþingis. Af þessum 27 mæla tveir aðilar með því að frumvarpið verði samþykkt, tveir af 27. Allir aðrir telja að málið þurfi annaðhvort betri undirbúning eða hafa athugasemdir við einstakar greinar. Langflestir telja að ekki sé hægt að vinna þetta mál á svo skömmum tíma og gerðu athugasemdir við að fá einungis fimm virka daga til að tjá sig um málið.

Þessar tillögur voru lagðar fram í nafni lýðræðisumbóta en þegar í ljós kemur að næstum enginn sem spurður er álits á málinu styður málið á engu að síður að þvinga það í gegn. Álitið er einfaldlega hundsað. Þetta eru allar lýðræðisumbæturnar.

Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga, sagði hæstv. heilbrigðisráðherra — sem ég sakna reyndar hér í kvöld — í umræðum um breytingar á stjórnarskránni þegar við ræddum þær hér síðast árið 2007. Í sama streng tók Össur Skarphéðinsson, hæstv. utanríkisráðherra.

En það er ekki bara málsmeðferðin sem er dapurleg því að með því að ætla að þvinga fram breytingar, sama hvað það kostar, heldur þessi minnihlutastjórn brýnustu hagsmunamálum heimilanna í gíslingu. Þess vegna hafa síðustu dagar verið dapurlegir á Alþingi.

Við sjálfstæðismenn teljum tímabært að endurskoða stjórnarskrána og höfum lagt til breytingar á framkomnu frumvarpi sem undir venjulegum kringumstæðum ætti að geta tekist góð sátt um. Minnihlutastjórnin hefur hins vegar keypt stuðning Framsóknar með þessu frumvarpi. Þau pólitísku hrossakaup hafa nú forgang fram yfir brýn viðfangsefni í þágu fólksins í landinu.

Við höfum lagt fram tillögur um að mál sem snerta hag heimilanna komist strax á dagskrá, en öllum slíkum tillögum hefur verið hafnað. Mikilvægasta verkefnið að mati þeirra sem hér stjórna för er að knýja í gegn breytingar sem aðeins tveir umsagnaraðilar af 27 treysta sér til að mæla með.

Hvar standa hin brýnu hagsmunamál heimilanna á meðan þessu vindur fram? Jú, hér hefur verið samþykkt frumvarp um greiðsluaðlögun. Samkvæmt frumvarpinu var gert ráð fyrir að um 200 manns mundu njóta góðs af því en eins og í ljós hefur komið, og mátti reyndar augljóslega sjá fyrir, var þetta stórkostlegt vanmat á þeim vanda sem íslensk heimili eiga við að glíma. Öll úrræði sem frumvarpið býður upp á miðast, eins og allar aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, við að þörfin sé miklu minni en hún er í raun.

Segja má að hinn aðalárangur ríkisstjórnarinnar sé hin glæsilega niðurstaða í Icesave-málinu sem hæstv. fjármálaráðherra kynnti til sögunnar á dögunum. Hún var reyndar dregin til baka. Það má segja hæstv. fjármálaráðherra til hróss að hann gerði það fyrir kosningar í staðinn fyrir að bíða með það þar til eftir kosningar.

Þessum flokkum er reyndar vorkunn að vilja helst ræða um stjórnarskrárbreytingu sem enginn styður og ná litlum árangri í þeim málum sem mesta þýðingu hafa fyrir heimilin í landinu. Þeir eru nefnilega ekki sammála um margt. Svarið sem Samfylkingin teflir fram við öllum spurningum sem snerta hag heimilanna er Evrópusambandið. Evrópusambandið er þeirra helsta svar, þeirra lokasvar.

Vinstri grænir eru andvígir þessu helsta máli Samfylkingarinnar. Flokkarnir tveir sem standa að minnihlutastjórninni eru líka algerlega á öndverðum meiði þegar kemur að nýtingu auðlinda þessa lands. Fullkominn ágreiningur er um það hvort heimila beri fjárfestingarsamning um uppbyggingu í Helguvík. Sá samningur er forsenda þess að hér verði til hundruð starfa og gjaldeyristekjur til framtíðar.

Reyndar verður að segja að stjórnartíð Samfylkingarinnar frá síðustu kosningum er alls ekki mörkuð viðleitni til að greiða fyrir áformum um nýtingu auðlinda landsins. Þeir sendu áform um uppbyggingu á Bakka Krýsuvíkurleið í stjórnsýslunni með því að auka flækjustigið að óþörfu og valda með því töfum og óvissu.

En þótt hyldýpi sé á milli stjórnarflokkanna tveggja um jafnmikil grundvallarmál og þessi er þó sitthvað sem sameinar þá. Þeir eru í fyrsta lagi sammála um að hækka skatta sem munu ekki síst bitna á ungu fjölskyldufólki sem vinnur mikið til að koma sér þaki yfir höfuðið. Það er fólk sem er margt í mjög erfiðri stöðu í dag með miklar skuldbindingar á herðunum. Og flokkarnir eru í öðru lagi sammála um að gera aflaheimildir upptækar sem mun skila þeim glæsilega árangri að gera róðurinn enn þyngri fyrir byggðir landsins. Báðir stjórnarflokkarnir hafa lýst því yfir að þeir stefna að því að innkalla aflaheimildirnar en slíkt mundi að öllum líkindum leggja íslenskan sjávarútveg í rúst. (Gripið fram í.) Ekki þarf að fjölyrða um hvílíkt áfall það yrði fyrir byggðir landsins og íslenskt efnahagslíf í heild sinni, þar með talið hina nýstofnuðu ríkisbanka sem svo mikið ríður á að verði öflugir og sterkir.

Fleiri kunnuglegar hugmyndir eru þegar byrjaðar að koma fram sem gefa smjörþefinn af því hvernig þessir flokkar hyggjast standa vörð um heimilin í landinu eftir kosningar. Frambjóðandi Vinstri grænna lagði á dögunum á það áherslu að taka bæri upp eignarskatt að nýju, eignarskattinn sem var réttnefndur ekknaskattur og Sjálfstæðisflokkurinn nam úr gildi enda er hann fyrst og fremst skattur á ævisparnað eldra fólks. Það er sem sagt ekki nóg að hlutabréfin hafi hrunið og lífeyrissjóðirnir tapað stórfé, steinsteypan skal tekin af fólkinu líka. Þetta er glæsileg framtíðarsýn. Þess má reyndar geta að formanni Vinstri grænna þótti ekki sérlega skynsamlegt af frambjóðanda sínum að kynna þessa hugmynd til sögunnar rétt fyrir kosningar.

Við sjálfstæðismenn höfum allt aðra sýn á það hvernig standa beri vörð um heimilin í landinu. Engir skattar eru á dagskrá hjá Sjálfstæðisflokknum og við höfnum framkomnum hugmyndum um nýja skatta á heimilin. Staðreyndin er nefnilega sú að við munum ekki skattleggja okkur út úr þessum vanda.

Góðir Íslendingar. Verkefnin sem liggja fyrir eru skýr en það skortir forustu til að takast á við þau. Brýnast er að leysa vítahring atvinnuleysis og gjaldþrota. Ein leið til þess sem við höfum sett fram er að bjóða fólki allt að helmingslækkun á greiðslubyrði húsnæðislána í þrjú ár gegn því að lánstíminn verði lengdur. Þessi kostur er raunhæfur, og stærsti kostur þessarar aðgerðar er sá að aðferðin er skjótvirk og sáraeinföld. Þeir sem í dag greiða 100.000 kr. á mánuði af húsnæði sínu eiga þess kost að lækka þá fjárhæð í 50.000 kr. á ári en lánið lengist á móti. Þannig viljum við hjálpa fólki að komast yfir erfiðasta hjallann. Það er ekki bara þýðingarmikið fyrir fólkið sjálft, heldur einnig fyrir efnahagslífið í heild sinni því að fyrirtækin í landinu fá ekki þrifist ef enginn hefur efni á að kaupa vörur þeirra eða þjónustu.

Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar felst raunar að fólk getur fræðilega náð fram hliðstæðri lækkun á greiðslubyrði en til þess þarf að fara fyrir héraðsdóm sem skipar umsjónarmann til að fara nákvæmlega ofan í saumana á fjárhagsstöðu viðkomandi einstaklings. Þetta er dæmigerð skriffinnskuaðferð frá vinstri flokkunum, tímafrek, dýr og niðurlægjandi. Það er hægt að fara aðrar leiðir, einfaldari, almennar sem gagnast öllum.

Þessi ríkisstjórn eyddi mörgum vikum og öllum sínum kröftum í að losa sig við stjórnendur Seðlabankans. Þetta var sagt nauðsynlegt til að endurheimta trúverðugleika Seðlabankans. Hver er árangurinn? Frá því að þessi ríkisstjórn var mynduð hefur gengi íslensku krónunnar lækkað um 10%. Þetta er árangurinn og hann er ekki glæsilegur.

Málið er reyndar grafalvarlegt því að gengislækkunin þýðir að það er raunveruleg hætta á því að verðbólgan fari núna aftur vaxandi með tilheyrandi kjaraskerðingu og hækkun á skuldabréfum. Þrátt fyrir nýjustu aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að verja krónuna heldur gengið áfram að lækka. Það er grafalvarlegt mál. Það er ekki síður alvarlegt að á meðan við erum að reyna bjarga krónunni er annar flokkurinn í ríkisstjórn algerlega sannfærður um að gjaldmiðillinn sé ónýtur og flokkurinn eykur á vandann með óábyrgu tali.

Það liggur alveg fyrir hvert verkefnið er. Það er að létta þrýstingi af krónunni með því að semja við innstæðueigendur og aðra þá sem vilja snúa íslensku krónunni í erlendan gjaldeyri. Þeir vilja flytja hann úr landi. Það er vandamálið. Vandinn sem við þurfum að búa við er hins vegar sá að þessi ríkisstjórn hefur ekki gefið okkur neina von, ekki minnstu vísbendingu um að hún ráði við það verkefni.

Góðir Íslendingar. Ég efast ekki eina sekúndu um að þessi ríkisstjórn er öll af vilja gerð. En vilji er ekki allt sem þarf. Það þarf að taka af skarið. Það þarf áræðni og þor til að ganga hreint til verks. Okkar bíður sannarlega mikið verkefni. Það liggur fyrir að okkur hefur ekki tekist að halda nægilega vel á málum hér á undanförnum árum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einn flokka þorað að horfast í augu við sinn þátt í því.

Nú ríður hins vegar á að við virkjum samtakamáttinn í þjóðfélaginu, að við snúum bökum saman, látum ekki hug fallast og sigrumst á þessum erfiðleikum með bjartsýnina og trúna á betri framtíð að leiðarljósi.