136. löggjafarþing — 129. fundur,  7. apr. 2009.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:10]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Nú hillir undir kosningar og fólkið í landinu hefur með aðstoð framsóknarmanna öðlast tækifæri til að velja sér nýja umboðsmenn til að fara með vald sitt. Framsóknarmenn lögðu reyndar meira til, þeir lögðu til stuðning án aðildar að minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna til að hreyfa við þeirri kyrrstöðu sem var orðin staðreynd í samstarfi þáverandi ríkisstjórnarflokka. Stuðningurinn var ætlaður til þess að hægt væri að vinna að raunverulegum aðgerðum í þágu heimilanna og atvinnulífs og að valdinu til að setja nýjar leikreglur í samfélaginu yrði vísað til þjóðarinnar. Alþingi hefur ekki getað lokið endurskoðun stjórnarskrárinnar á þeim 65 árum sem liðin eru síðan danski konungurinn gaf okkur þann sáttmála þótt tilraunir til þess hafi staðið nánast allan þann tíma. Eins og allir vita sem fylgst hafa með umræðum þingsins undanfarna daga virðast sjálfstæðismenn, sem skipa minni hluta í þinginu, standa í þeirri trú að ríkisvaldið eigi upptök sín í konungsríkinu Valhöll við Háaleitisbraut og af því tilefni haldið uppi svívirðilegu málþófi í þinginu — á kostnað þjóðarinnar sem bíður eftir því einu að sjálfstæðismenn ljúki sér af. Þær leikreglur sem hér um ræðir felast m.a. í því að eignarhald á auðlindum þjóðarinnar verði staðfest í stjórnarskrá og að þjóðin sjálf setji sér stjórnarskrá og þær eru forsenda þess að trúnaður verði byggður upp á nýjan leik í nýju og réttlátara samfélagi.

Þess má geta í framhjáhlaupi að kannanir gefa til kynna allt að 77% stuðning meðal þjóðarinnar við stjórnlagaþingið sem sjálfstæðismenn mótmæla hér m.a. með söng og tralli fram á miðjar nætur.

Ágætu landsmenn. Við stöndum frammi fyrir því að svara spurningunni um hvers konar samfélag við viljum byggja á rústum þess sem hrundi hér á haustmánuðum. Til að gera langa sögu stutta hefur þrískipting ríkisvaldsins þróast yfir í ráðherraræði þar sem löggjafarvaldið hefur safnast fyrir hjá framkvæmdarvaldinu á ráðherrabekkjunum í þinginu. Hlutverk þingmanna sem samkvæmt stjórnarskrá eru umboðsmenn þjóðarinnar og fara hér með vald hennar hefur hins vegar verið gjaldfellt á móti þessari samþjöppun valds. Það gerir þingmönnum erfiðara um vik að sinna þeim störfum sem þjóðin hefur trúað þeim fyrir. Stjórnlagaþing er virk og greiðfær leið til leiðréttingar.

Það liggur einnig fyrir að afskipti stjórnmálaflokka af atvinnu- og viðskiptalífi eru óvíða meiri en hér. Með því er ég ekki að halda fram rökum með taumlausri frjálshyggju en þegar hagsmunatengsl á milli einstakra fyrirtækja og stjórnmálaflokka — og þar undanskil ég ekki Framsóknarflokkinn — eru svo samofin að ekki verður á milli skilið hlýtur fólk að kalla eftir því að settar verði nýjar leikreglur til að forðast misnotkun á þeirri lýðræðislegu samkundu sem hér er saman komin. Stjórnlagaþing er virk leið til að leiðrétta þá stefnu sem viðgengist hefur um árabil.

Góðir landsmenn. Framsóknarflokkurinn státar af fleiri nýjum frambjóðendum á sínum listum en aðrir flokkar sem flestir bjóða upp á sama fólkið með sömu hugmyndirnar og komu okkur á þann bekk sem við nú skipum. Þeir hafa jafnframt lagt fram tillögur í 18 liðum sem hafa það hlutverk að leiðrétta og jarðtengja eftir að ríkisstjórnarflokkarnir hinir nýju höfðu starfað saman í mánuð og ekkert virtist í farvatninu nema litlir og einnota plástrar. Því miður auðnaðist þeim ekki að lesa í gegnum tillögurnar áður en þeim var hafnað umsvifalaust og þá helst þeirri tillögu að leiðréttar yrðu skuldir landsmanna og þær lækkaðar um 20%.

Þær hugmyndir ganga einmitt út á það í fyrsta lagi að fólk fékk aldrei það fé til ráðstöfunar sem skuldaaukning þess segir til um. Í annan stað ganga hugmyndirnar út að verðmæti lánasafna bankanna eykst til mikilla muna af því að fleiri skuldarar munu geta borgað af lánunum sínum. Í þriðja lagi kostar tillagan ríkissjóð ekki krónu enda er búið að afskrifa þessi lánasöfn um a.m.k. helming á kostnað kröfuhafanna án þess að tryggt sé að heimilin og fyrirtækin njóti þess, heldur eiga þau að borga áfram, ekki bara af lánunum sínum heldur líka himinháar verðbætur sem hækka með degi hverjum. Í fjórða lagi má með leiðréttingu sem þessari hraða því að hjól atvinnulífsins komist af stað aftur. Í fimmta lagi er ekki tími til að meta hvert einasta lán í landinu því að skaðinn sem hlýst af á meðan unnið er að því er óbætanlegur. Í sjötta lagi er ekki forsvaranlegt að fulltrúar ríkisins inni í bönkunum eigi að hafa það hlutverk að útdeila lífsins gæðum heldur verða allir að sitja við sama borð hvað það varðar. Annað kallar á spillingu. Í sjöunda lagi má með tillögunum koma í veg fyrir að hengjan bresti og sett verði af stað flóð sem ekki verður stöðvað í miðri brekku. Líkurnar á því að hengjan bresti aukast með hverjum degi en ríkisstjórnarflokkarnir skella við skollaeyrum og reyna að smella vandanum bara ofan í frystikistu. Fasteignamarkaðurinn er botnfrosinn, hitinn í atvinnulífinu nálgast alkul, þúsundir námsmanna flykkjast út úr skólunum innan tíðar og munu ganga um án atvinnu og án framfærslu á komandi sumarmánuðum án þess að lausn sé í sjónmáli. Fjölda fyrirtækja er lokað á degi hverjum og sífellt færri geta séð sér farborða, hvað þá greitt af skuldunum sem hækka daglega án þess að rönd verði við reist. Og brekkusöngvar duga þá skammt eða annað stundargaman ef því er að skipta.

Góðir landsmenn. Það skiptir okkur öll meginmáli að þeir sem veljast til verka skilji þann vanda sem blasir við þjóðinni, að þeir séu þannig vaxnir að þeir geti framkvæmt og það á sanngjörnum forsendum. Búa þarf svo um hnútana að hér verði tryggt átak til atvinnusköpunar til að standa undir nauðsynlegum vexti og velferð. Framsóknarmenn setja manngildi ofar auðgildi og þeir hafa djörfung til að leita leiða í samvinnu við fólkið í landinu til að byggja nýtt samfélag sem einkennist af réttlæti, sanngirni og hófsemi. — Góðar stundir.