136. löggjafarþing — 129. fundur,  7. apr. 2009.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:17]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Ísland 2015 hét skýrsla sem kom út hjá Viðskiptaráði 2006 og þar var rætt talsvert um Norðurlönd, of háa skatta, ofvirk velferðarkerfi.

Orðrétt var lagt til, með leyfi forseta:

„Viðskiptaráð leggur til að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum.“

Þetta var skýrsla um framtíðarlandið Ísland og hvernig það yrði sem best út frá mælikvörðunum sem þá voru allsráðandi. Minni samneysla, lægri skattar, minna regluverk, meira einkaframtak. Meira frelsi.

Nú er árið 2009, enn sex ár í 2015 þegar upp átti að rísa framtíðarland Viðskiptaráðs. Fyrir nokkrum mánuðum hrundi íslenska bankakerfið eftir stórkostlegt gáleysi eigenda, stjórnenda, eftirlitsaðila, löggjafa, ríkisstjórnar. Sú útbelgda nesjamennska sem birtist í skýrslu Viðskiptaráðs er hætt að vera hlægileg, hún er hræðileg, því að hún er vitnisburður um hugsunarháttinn sem sökkti íslensku þjóðinni í skuldir.

Á sumum sviðum eru Íslendingar staddir á núllpunkti. Hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins — Frjálshyggja 101 — er stödd á endastöð, fólkið í vagninum vill fá nýjar hugmyndir, nýja framtíðarsýn. Fólkið stóð upp og krafðist þess að fá að ráða einhverju um ferðalagið en vagnstjórinn sagði ekki neitt, hann benti bara á skiltið: „Talið ekki við vagnstjóra í akstri.“ Þannig var stjórn Sjálfstæðisflokksins, „við erum við stýrið, við erum með kortið og við stoppum þegar við viljum stoppa“. En fólkið settist ekki niður, íslenska þjóðin barði í potta og pönnur og krafðist kosninga.

Kosningarnar verða 25. apríl. Minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar, varin af Framsóknarflokknum, hefur undanfarnar 10 vikur unnið hörðum höndum að þeim verkefnum sem ríkisstjórnin var mynduð um og hafa hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra farið yfir þau í ræðum sínum hér.

En hvað tekur við nú? Það er ljóst að þinginu er ekki lokið og mikilvæg mál bíða enn afgreiðslu — einkum breytingar á stjórnarskrá sem snúast fyrst og fremst um að færa vald til stjórnarskrárbreytinga í hendur þjóðarinnar, sem snúast um að færa auðlindirnar í þjóðareigu svo að þær verði ekki seldar í næsta góðærisfylleríi, sem snúast um að auðvelda þjóðinni að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg mál og síðast en ekki síst, snúast um stjórnlagaþing sem ætlað er að smíða nýja stjórnarskrá.

Sjálfstæðismenn hafa tekið til máls oft og lengi hér í þessum sal og flutt þann boðskap að þetta mál sé ekki brýnt hér og nú og þarfnist frekari umræðu sem sýnir kannski að þeir hafa ekki hlustað nægilega grannt á þjóðina vegna þess að hún krefst þess að hafa áhrif, ekki aðeins með því að kjósa í þingkosningum heldur líka með því að greiða beint atkvæði um mikilvæg mál og með því að vera stöðugt höfð með í ráðum, ekki aðeins á fjögurra ári fresti.

Það þarf hugrekki til að auka lýðræðið, opna samfélagið, og eflaust sjá einhverjir fram á að vagnstjórinn fái ekki að vera í friði fyrir farþegunum í sínu hefðbundna fjögurra ára ferðalagi. En lýðræðisumbætur eru forsenda endurreisnar og nýrrar framtíðarsýnar.

Kosningarnar 25. apríl snúast nefnilega um nýja framtíðarsýn og hvernig við byggjum upp betra og réttlátara Ísland, lýðræðislegra Ísland.

Auðvitað munu þær líka snúast um mörg og alvarleg mistök sem við verðum að læra af. Kannski er lærdómurinn sá að ekki er hægt að reiða sig á of hraðan hagvöxt, ekki er hægt að ganga endalaust á höfuðstólinn og taka út skammtímagróða út á vægast sagt óljósar innstæður. Hvað áttu þegar þú hefur selt allt? er spurt í kvikmynd sem frumsýnd er í kvöld. Hugsum um það þegar við hugsum um auðlindirnar okkar; fiskinn í sjónum, orkuna í iðrum jarðar og orkuna í fallvötnunum, almannaþjónustuna og innviðina. Hvað áttu þegar þú hefur selt allt?

Hvað gerum við þá? Útlitið er ekki bjart. Hvernig sem á málið er litið liggur fyrir að næstu ár verða erfið og munu kalla á sársaukafullan niðurskurð opinberra útgjalda. En það verður líka að forgangsraða þannig að staðinn verði sem styrkastur vörður um menntakerfi, heilbrigðiskerfi og félagskerfi, það sem gerir íslenskt samfélag að góðu samfélagi, norrænu velferðarsamfélagi eins og það sem Ísland 2006 vildi helst forðast.

Helsta von okkar núna er nýtt gildismat. Möguleikinn hefur skyndilega skapast á betra Íslandi, réttlátara samfélagi þar sem leiðarljósið er hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar sem gengur út á að ganga ekki á höfuðstólinn, hvort sem er hinn efnahagslega, samfélagslega eða hinn umhverfislega. Við höfum möguleika núna á að eyða þeim ójöfnuði sem hér hefur aukist og var réttlættur með hagvexti sem því miður reyndist tálsýn. Við höfum möguleika á að ná þjóðarrútunni sjálfri upp úr skurðinum og taka upp nýtt aksturslag.

Sóknarfærin eru sem betur fer mörg og þau búa fyrst og fremst í þjóðinni sem hér býr. Sú ríkisstjórn sem nú situr — og vonandi situr áfram eftir næstu kosningar — á að hlusta á fólkið í landinu, standa vörð um það sem skiptir okkur mestu máli og leyfa þúsund blómum að blómstra. Við sjáum það á hruni efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins að risastór iðjuver og skyndilausnir bjarga ekki efnahag samfélagsins, það gerir aðeins fólkið í landinu sjálft.

Við vitum líka að erfiðleikarnir eru hvergi nærri að baki, kannski rétt að byrja, en höfum hugfast að íslenska þjóðin hefur áður búið við kröpp kjör og hér er hún samt enn. Ég trúi því að við munum öll læra af þessu hruni og koma sterkari úr kreppunni en við fórum í hana. — Góðar stundir.