136. löggjafarþing — 129. fundur,  7. apr. 2009.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:23]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Fl):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Fyrir tveimur árum voru alþingiskosningar. Að þeim loknum hófst kapphlaup þriggja flokka að rúmi Sjálfstæðisflokksins. Við vitum hvernig því kapphlaupi lauk. Starfstími þeirrar stjórnar sem mynduð var varði í 18 mánuði og var ýmislegt gott verk unnið, einkum á sviði félagslegra mála. Að mínu mati bar þó í upphafi einn dimman skugga á stjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins en það var sá ásetningur að breyta ekki fyrirkomulagi fiskveiðistjórnarinnar því að það kerfi er spillt og ranglátt. Þá staðreynd fengum við staðfesta frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna innan við hálfu ári eftir að sú ríkisstjórn komst á legg. Við fengum úrskurð um að framkvæmd laga um stjórn fiskveiða bryti í bága við mannréttindi. Nú bar ríkisstjórninni að svara þessu og var það gert með loforði um að stofna nefnd er kæmi með tillögur um að leiðrétta þetta misrétti og ranglæti. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar bar ekki gæfu til þess og núverandi ríkisstjórn hefur heldur ekki borið gæfu til þess.

Góðir tilheyrendur. Það er nauðsynlegt að Frjálslyndi flokkurinn komist til meiri áhrifa svo kerfinu verði breytt og þjóðin mun þá finna og sjá að hafið er ekki bara til þess að horfa á sem einkaeign að mestu örfárra aðila sem sumir hverjir eiga sína sneið í fjármálalegu hruni þjóðarinnar. Já, áður en kýlið sprakk sem einkavæðing bankanna leiddi til sögðu margir: Atvinnulíf hins íslenska samfélags byggist upp á fjórum styrkum stoðum, þ.e. sjávarútvegi, ferðamennsku, iðnaði og fjármálastarfsemi.

Svo einn daginn, herra forseti, féll sú stoð sem margir töldu þá styrkustu, fjármálastoðin mikla, en hún var reist á sandi og stóðst því ekki þá vinda og steypiregn sem á skullu. Nú er það ljóst að þjóð þessa lands horfir fram á gríðarleg verkefni og hún þarf að takast á við mikinn niðurskurð. Frjálslyndi flokkurinn leggur á það ríka áherslu að þeir sem búa við fátækt og erfiðleika verði sá hópur sem síðast verði gengið að og að það fólk sem missir þakið ofan af sér öðlist rétt til þess að búa áfram í húsnæði sínu gegn sanngjarnri leigu.

Við verðum líka að horfa á möguleika lands okkar, dugnað og áræði þjóðarinnar og standa saman í því að efla og treysta þær stoðir sem eftir standa. Á ég þá við sjávarútveg, ferðamennsku, iðnað og landbúnað og bendi á að bændur og byggðir lands okkar munu gegna hér miklu hlutverki. Já, við búum í góðu og gjöfulu landi sem getur því miður ekki státað af því að hafa átt snjalla stjórnendur og því erum við í þeim erfiðleikum sem við okkur blasa en eru þó alls ekki óyfirstíganlegir. Við munum komast á réttan kjöl ef þjóðin stendur saman í því að innleiða hér siðferði og samskipti sem grundvallast á þeim gildum sem sótt eru í siðaboðskap kristinnar trúar. Á þetta er nú vert að minnast í dymbilviku, í aðdraganda páskahátíðar sem boðar okkur sigur lífsins yfir dauðanum.

Góðir landsmenn. Flestir fréttatímar segja okkur meira og minna af efnahag, fjármálahneykslum og gjaldþrotum og hvar sem fólk kemur saman mótast umræðan mjög af þessum fréttum, en á meðan vill margt annað gleymast. Ég tel, herra forseti, að við ættum að gefa æskufólki okkar meiri gaum, huga betur að því og efla allt forvarnastarf, einkum á sviði áfengis- og fíkniefnamála, og byggja það fólk upp sem lent hefur í þeim klóm. Hér gegna skólar miklu hlutverki, íþróttafélög, þjóðkirkjan og meðferðarstöðvar eins og t.d. Hlaðgerðarkot og sú blessaða starfsemi sem er á vegum Samhjálpar, SÁÁ, Krísuvíkursamtakanna, Teigs og Ekrons. Einnig vil ég minna á nauðsyn uppbyggingar og endurhæfingar þeirra manna sem nú dvelja í fangelsum Íslands. Í kreppunni gleymist þetta oft, þetta fólk, og þá er meiri hætta á því að við sjáum unga fólkið okkar stíga inn í myrkraheim fíkniefnanna.

Herra forseti. Við sjáum í landi okkar margar byggingar hálfreistar en frá þeim heyrast engin hamarshögg lengur og mikið er nú talað um nauðsyn þess að klára tónlistarhúsið mikla hið fyrsta. Ég tel að það megi bíða um stund en í stað þess skulum við ljúka hið snarasta við Egilshöllina svokölluðu. Þar er þó mikil starfsemi og 700–800 börn koma þangað á hverjum degi til íþróttaiðkunar. Umhverfi þessa mikla mannvirkis er beinlínis hættulegt og mildi má kallast að engin meiri háttar slys hafi orðið þar á börnum. Svo stórt hverfi sem þar er og mannmargt má alls ekki bíða lengur eftir því að verk þetta klárist enda hefur það sinn tilgang í forvarnastarfi fyrir fjölda barna, ungmenna og fullorðinna.

Áheyrandi minn góður. Alþingiskosningar verða þann 25. apríl nk. Ég hvet alla sem mál mitt heyra að fylkja sér um Frjálslynda flokkinn því að hann mun ekki beygja af í mannréttindamálunum.