136. löggjafarþing — 129. fundur,  7. apr. 2009.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:29]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Góðir landsmenn. Um hvað snúast alþingiskosningar á þessu vori? Hver er staðan, hvernig vinnum við okkur út úr þeim vanda sem við okkur blasir? Hvaða lausnir bjóða stjórnmálaflokkarnir fólkinu í landinu? Við ættum að vera að ræða þessi mál en þess í stað ræða hæstv. oddvitar ríkisstjórnarinnar það að sjálfstæðismenn hafi rætt á hinu háa Alþingi stjórnarskrána í 34 klukkustundir. Ég minni á að einn hv. þingmaður ræddi hér um Húsnæðisstofnun ríkisins fyrir nokkrum árum í 10 klukkustundir samfleytt í einni ræðu.

Í allan vetur hefur tortryggni í þjóðfélaginu aukist og traust er á undanhaldi. Í allan vetur hefur verið leitað að pólitískum sökudólgum í öllum stjórnmálaflokkum, af öllum stjórnmálaflokkum. Í allan vetur hefur verið skortur á upplýstri umræðu og tillögum um aðgerðir til lausnar. Hér bera allir ábyrgð.

Hvað boðar minnihlutaríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna til lausnar á þessum vanda? Jú, stórhækkaða og nýja skatta, niðurskurð ríkisútgjalda — svokallaða blandaða leið. Vandinn er einfaldlega sá að það má ekki upplýsa hvað á að gera, hvenær á að gera það eða hvernig framkvæmdin verður. Þar af leiðandi er heldur ekki upplýst hvernig aldrað eignafólk í skuldlausum eignum á að fara að greiða eignarskattinn sinn né heldur hvenær barnafjölskyldan með 500 þús. kr. tekjur á mánuði sem sér húsnæðislánin hækka, má vænta þess að fara að greiða svokallaðan hátekjuskatt.

Þessar aðgerðir eiga að mati stjórnarflokkanna að vinna bug á hallanum og að auki væntanlega standa undir kosningaloforðum Vinstri grænna um að öll börn eigi að fá ókeypis skólamáltíðir og að fjölga beri opinberum störfum. Þannig eru a.m.k. kosningaloforðin á þeim bænum. Við skulum vona að velferðarbrúin sem Samfylkingin boðaði hér áðan hrynji ekki áður en hún verður byggð vegna ósamstöðu ríkisstjórnarflokkanna.

Við sjálfstæðismenn viljum nýta til atvinnuuppbyggingar þá þekkingu og færni, dugnað og dug sem býr í vel menntaðri og heilbrigðri þjóð sem býr við öflugt félagslegt kerfi, öfluga heilbrigðisþjónustu, gott samgöngukerfi, framsæknar atvinnugreinar og miklar náttúruauðlindir. Við trúum því að þjóðin geti, hún muni og hún vilji takast á við þau verkefni sem bíða úrlausnar af bjartsýni og þeirri eljusemi sem hefur gert henni kleift allt frá landnámi að byggja þetta harðbýla en gjöfula land.

Ég vara við þeirri bölsýni og bölmóð sem dynur á fólki úti um allt þjóðfélagið í aðdraganda næstu kosninga, talandi um það eftir 18 ára stjórnarforustu Sjálfstæðisflokksins í ágætu samstarfi við öll stjórnmálaöfl á Alþingi að þá sé allt í rúst. Hvað á þetta að þýða á sama tíma og verið er að vitna til þess að á grunni mikillar og góðrar menntunar þjóðarinnar, á grunni mikillar þekkingar á orkusviði, möguleikum virkjunar á náttúruauðlindum eigum við viðreisnar von á þessum grunni? Hvað á það að þýða á sama tíma að reyna að telja fólki trú um að hér sé allt í rúst? Það er langur vegur frá, Íslendingar eiga mjög bjarta framtíð. Ég þakka þeim sem hlýddu. — Góðar stundir.