136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[10:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi segja að ég að harma það enn og aftur að hæstv. forseti skuli sitja fast við sinn keip og halda sig við þá ákvörðun, sem virðist vera ákvörðun meiri hluta Alþingis, þ.e. minnihlutaríkisstjórnarinnar með fylgihnetti sínum Framsóknarflokknum, að gera það mál sem við ræðum hér, stjórnarskipunarlögin, að því forgangsverkefni sem Alþingi á að glíma við.

Við þurfum ekki annað en að lesa yfir dagskrá þingsins eins og hún liggur hér fyrir til að sjá að fjölmörg mál eru á dagskrá og fleiri raunar sem hægt væri að vinna að sem lúta beint að hag heimila og fyrirtækja og að efnahagslífinu sem öllum er ljóst nema þá meiri hluta Alþingis að þessu sinni að eru brýnustu málin og þau mál sem við ættum að vera að ræða hér.

Það er kannski af sérstakri tillitssemi við þingmenn Vinstri grænna sem málið Heimild til samninga um álver í Helguvík er haft númer 10 á dagskrá til þess að þeir þurfi ekki að opinbera fyrir alþjóð enn og aftur þann mikla ágreining sem uppi er í ríkisstjórnarflokkunum þar sem um er að ræða stjórnarfrumvarp (Gripið fram í.) sem hefði verið fellt á jöfnu ef greidd hefðu verið um það atkvæði í ríkisstjórninni. Og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, sem sérhæfir sig í frammíköllum en vælir svo undan því þegar hún sjálf sætir einhverjum frammíköllum, er að reyna að trufla mig í þessari ræðu en tekst það auðvitað ekki því að ég þarf einfaldlega að koma því til skila að hv. þingmaður er eins og flokkur hennar á móti því að beita skattaívilnunum til að draga hingað að erlent fjármagn til að stuðla að atvinnuuppbyggingu en hefur hins vegar komið auga á að það er hægt að drepa niður atvinnustarfsemi með því að skattleggja hana eins og fréttir frá gærdeginum bera með sér.

Það er auðvitað svo, virðulegi forseti, að við hefðum þurft að ræða þau mál sem hér eru á dagskrá líka í ljósi þess að við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegri stöðu sem öllum er ljós. Við vorum að heyra það núna fyrir einum og hálfum tíma síðan að hin nýja peningamálastefnunefnd Seðlabankans var að taka ákvörðun um að lækka stýrivexti um eitt og hálft prósentustig. Þetta er gert þrátt fyrir að vitum að hér er ekki raunveruleg verðbólga í landinu. Ef þriggja mánaða tímabil er framreiknað blasir við að verðbólgan er kannski 1, 2, 3 prósentustig eða eitthvað á þeim grunni en engu að síður eru stýrivextir hér upp úr hæstu hæðum. Og ástæðan fyrir því að hin nýja peningamálastefnunefnd getur ekki tekið aðra ákvörðun eða hefur ekki treyst sér til að taka aðra ákvörðun en hún gerði í morgun er auðvitað sú að hér er allt að fara í fár. Gengi íslensku krónunnar virðist vera komið í frjálst fall. Frá því um áramót hefur gengi krónunnar lækkað um fimmtung, um 20%, og nú eru menn að spá því að við séum einungis að sjá hér byrjunina.

Það er af þessum ástæðum sem við erum að komast í þetta mikla öngstræti. Peningamálastefnunefndinni, sem hefur m.a. það lögbundna verkefni sem kveðið er á um í lögum um Seðlabankann, er auðvitað mjög þröngur stakkur skorinn í ljósi þess að hún er líka að reyna að tryggja það að gengi krónunnar haldist sem stöðugast. Ríkisstjórnin er auðvitað orðin sjálfstætt efnahagsvandamál sem kemur í veg fyrir að hægt sé að lækka stýrivexti eins og þörf er á og samfélagið allt kallar eftir, hvort sem það eru heimilin eða fyrirtækin.

Við hefðum því þurft að ræða hér efnahagsmálin sem eru aftar á dagskránni til að reyna að leggjast á árarnar sameiginlega um það að vinna okkur út úr þessum vanda. Hins vegar virðist það vera pólitísk niðurstaða stjórnarmeirihlutans með fylgihnetti sínum að þau mál geti beðið, að þau mál eigi ekkert að ræða. Að miklu brýnna sé að takast á við það að setja stjórnarskrá, illa unnin stjórnarskrárákvæði þar sem kveðið er á um hluti sem sannarlega þyrfti að koma inn í stjórnarskrána með einum eða öðrum hætti í mörgum tilvikum en eru hins vegar þannig úr garði gerðir að varla nokkur einasti af þeim umsagnaraðilum sem hafa tjáð sig í þessum efnum treystir sér til þess að mæla með málinu.

Þeir sem hafa farið ítarlegast ofan í þetta og jafnvel þeir sem eru því sammála að taka þurfi á þeim efnisatriðum sem kveðið er á um í frumvarpinu, vara okkur mjög eindregið við því að gera það með þeim vinnubrögðum sem hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að tileinka sér. Þetta er auðvitað hörmulegt og ég verð raunar að segja að ég skil ekki hvað vakir fyrir þeim ágætu þingmönnum sem mynda meiri hluta ríkisstjórnarinnar, standa að meiri hluta ríkisstjórnarinnar og verja hana falli, með að hegða sér með þessum hætti. Með þessu er ríkisstjórnin og fylgismenn hennar í raun og veru að senda mjög skýr skilaboð út til þjóðarinnar. Skilaboðin eru þessi: Okkur stendur á sama um þau mál sem þjóðin í raun og veru kallar á. Við ætlum að hafa okkar fram, við ætlum að knýja það í gegn að þetta mál sem svo illa er unnið verði að lögum, við ætlum að setja ýmis grundvallaratriði í stjórnarskránni í uppnám, við ætlum að auka óvissuna vegna þess að það stendur þannig á, við erum þannig skapi farin, okkur langar svo til þess burt séð frá því sem verið er að segja. — Þetta eru auðvitað alveg óboðleg vinnubrögð.

Það er oft gagnrýnt þegar lögð eru fram frumvörp sem ekki eru talin nægilega undirbúin. Það er a.m.k. hægt að afsaka það með því að það er hægt að taka þau mál fyrir aftur að nýju, það er hægt að ræða þau aftur ef menn svo kjósa og gera breytingar á þeim. En við gerum ekki svoleiðis breytingar á stjórnarskránni ár eftir ár, það er einfaldlega þannig að við eigum ekki að gera tíðar breytingar á stjórnarskránni. Við eigum að reyna að nálgast stjórnarskrá okkar af fullri virðingu en það er ekki verið að gera það af hálfu þeirra sem ákveða hér og nú að knýja á um að þessi mál skuli afgreidd hvað sem öllu öðru líður.

Af því að hér mætir í salinn hv. þm. Árni Þór Sigurðsson þá má segja að hann hafi verið eins konar litli putti spilamann sem kjaftaði frá, hérna um daginn í umræðunni. Það var þannig að fyrir hann voru lagðar nokkrar spurningar og hann kaus að reyna að sneiða fram hjá því og þegar honum var bent á það sagði hann einfaldlega þessa fleygu setningu, sem er mjög mikilvægt að menn undirstriki í þingskjölunum og þingræðunum sem eru aðgengilegar á vefnum og fyrir framtíðina. Hv. þingmaður sagði efnislega: Ég svara þeim spurningum sem mig langar til að svara og ég vil svara þegar mér hentar og þegar ég vil. Þetta er hin fullkomni hroki sem hv. þingmaður, litli putti spilamann kjaftaði frá, hefur með þessum hætti má segja greipt inn í bækur Alþingis — og gerist nú hv. þingmaður órólegur í sæti sínu vegna þessa. En hann hleypur auðvitað ekkert frá þessum orðum. Þau hafa verið tekin upp og menn geta meira að segja horft á hv. þingmann segja þessi orð ef menn svo kjósa. Þetta segir auðvitað við hvers konar ofríkisríkisstjórn, ofríkisstjórn við búum hér þegar hún hagar sér þannig og talsmenn hennar í sölum Alþingis.

Þetta er auðvitað ekki hægt. Við sjálfstæðismenn höfum lagt til að við reyndum að ná saman um tiltekinn efnisþátt til að greiða fyrir því hvernig hægt væri að standa að því að breyta stjórnarskrá sem að mínu mati er mjög sanngjörn tillaga sem fæli það í sér að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar þannig að við þyrftum ekki að samþykkja það á tveimur þingum. Það væri hægt að gera það eins og menn vita að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu og við tækjum svo til við það í góðri sátt á þessu ári að ljúka þeim efnisatriðum stjórnarskrárinnar sem ég er viss um að við gætum orðið sammála um. Því ég er alveg sammála því að ýmislegt í þessu frumvarpi er í rétta átt. Ég er t.d. sammála því að við eigum að takast á við þau efnisatriði sem eru í 1. gr. svo dæmi sé tekið. Ég tel líka að við eigum að takast á við efnisatriði sem snúa að þjóðaratkvæðagreiðslunni svo annað dæmi sé tekið en við gerum það ekki með þeim hætti sem hér er verið að gera. Það verður aldrei of mælt og aldrei of oft sagt að við verðum að sýna stjórnarskránni þá lágmarksvirðingu. Eitt atriði í frumvarpinu hér sem er auðvitað — og ég vil, virðulegi forseti, af því tilefni segja að með því að vinna þetta með þessum hætti væri hægt að ljúka umræðunni hér og nú og ganga í þetta verkefni. Það væri enginn ógreiði gerður, jafnvel þeim sem hafa mestan áhuga á, að koma til að mynda þessum ákvæðum inn í stjórnarskrá sem ég var að nefna. Það er ekkert sem gerir það að verkum að það þurfi að ljúka þessu fyrir 25. apríl, það er allt eins hægt að ljúka þessu síðar á þessu ári og ná þá a.m.k. sambærilegum markmiðum og hér er verið að leggja upp með.

Mér er algerlega óskiljanlegt, virðulegi forseti, að það skuli vera svona einbeittur vilji hjá stjórnarliðinu að reyna að knýja þetta mál í gegn í ósátt við svo marga, ekki bara við Sjálfstæðisflokkinn heldur nánast alla umsagnaraðila sem hafa tjáð sig um þessi mál. Umsagnir þeirra eru innbyrðis að sumu leyti ólíkar en eitt virðist ganga sem rauður þráður í gegnum þær og það er að vara við þessum vinnubrögðum.

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma hér aðeins að einu efnisatriði í frumvarpinu, mér gefst ekki tími til þess að fara yfir fleiri mál að sinni. Það er atriði sem lýtur að 1. gr frumvarpsins, þ.e. ákvæðið um þjóðareign á náttúruauðlindum, sem er út af fyrir sig rétt sem sagt hefur verið að tvær ríkisstjórnir sem m.a. Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild settu sér sem markmið að setja inn í stjórnarskrá. Þetta mál var rætt í nokkrum ágreiningi fyrir kosningarnar 2007. Þá var það samdóma álit að skynsamlegra væri að láta það bíða vegna þess að um það væri ágreiningur og taka síðan vil við það á næsta kjörtímabili. Þess vegna var það auðvitað rökrétt að sú ríkisstjórn sem sat fram til 1. febrúar sl. hafði það í stefnuyfirlýsingu sinni að taka til við þetta ákvæði m.a. Henni entist hins vegar ekki líf til að ljúka því máli. Gert hafði verið gert ráð fyrir að þeirri endurskoðun yrði lokið fyrir lok þess kjörtímabils sem menn höfðu áætlað að stæði til 2011 og eðlilegasti framgangsmátinn hefði verið sá að þetta mál hefði verið tekið til alvarlegrar endurskoðunar og vinnu á þessu ári og komandi árum til þess að ljúka því í tæka tíð. Það tókst sem sagt ekki og þá grípur núverandi ríkisstjórn til þess að hlaupa til og afgreiða málið og krefjast þess að umsagnaraðilar klári umsagnir sínar á fimm dögum, sem er algerlega fáheyrt í svona máli og fá dæmi um þegar verið er að fjalla almennt um frumvörp og lagasmíð eins og hv. þingmenn vita. Hér er þó ekki um neitt smámál að ræða. Öllum er ljóst að þær breytingar almennt sem verið er að tala um á stjórnarskránni eru grundvallarbreytingar. Það er a.m.k. álit þeirra sem tjá sig um málin í umsögnum sem ég hef lesið yfir, m.a. ýmissa lögfræðinga. Með öðrum orðum, þetta er gríðarlega stórt mál.

Við skulum aðeins velta fyrir okkur hugtakinu þjóðareign sem þrjár ríkisstjórnir hafa haft á stefnuskrá sinni að setja með einhverjum hætti inn í löggjöfina, stjórnarskrárlöggjöfina. Þegar við skoðum hvað menn segja um þetta má segja að það sé nánast grundvallarágreiningur um það hver merkingin er. Í fyrsta lagi er það mat t.d. prófessors Sigurðar Líndals, sem oft er kallaður til af ýmsu tilefni fyrir þingnefndir og oft er vitnað í bæði í fjölmiðlum og í ræðustóli þingsins, að þetta sé merkingarlaust hugtak, það er skoðun hans. Ég ætla í sjálfu sér ekki að ræða það, enda hef ég kannski ekki mikla efnislega burði til þess, en þetta er skoðun hans og ég segi fyrir mína parta að mér finnst það a.m.k. ómaksins vert að doka aðeins við og velta fyrir sér hvort eitthvað sé til í þessum orðum prófessorsins. Í öðru lagi, sem virðist þó vera miklu algengari viðbára hjá þeim sem fjalla um þetta efnislega — það á t.d. við um hagsmunaaðilana og það á við um ýmsa aðra lögfræðinga sem segja að þetta hugtak sé óljóst — með öðrum orðum, menn vita ekki hvað það þýðir. Og er það ekki tilefni til þess að menn doki aðeins við þegar þeir sem eiga við að búa — þetta hugtak snertir hagsmuni, starfsgrundvöll og rekstrargrundvöll til að mynda útgerðarinnar og orkufyrirtækjanna, segja að þetta fyrirbæri eða þetta hugtak, ég vil nú frekar segja hugtak, þjóðareign sé óljóst hugtak? Eða eins og ég hygg að Orkustofnun orði þetta, þegar þeir hafa velt þessu fyrir sér, að leggja megi tvenns konar skilning í þetta hugtak. Þeir segja, með leyfi forseta:

„Hvor skilningurinn sem lagður er til grundvallar þá er þetta óskiljanlegt. Ljóst er að með umorðun á því sem fram kemur í niðurstöðum auðlindanefndar þeirrar sem kosin var á Alþingi í kjölfar samþykktar á þingsályktun í júní 1998 hefur eitthvað misfarist af hálfu stjórnarskrárgjafans.“

Þetta er með öðrum orðum óskiljanlegt mál og það hefur misfarist sem meiningin var í áliti auðlindanefndar þrátt fyrir að mjög sé vitnað til þess að stuðst sé við álit þeirrar auðlindanefndar sem við kusum á sínum tíma og vann að mínu mati mjög gott og þarft verk.

Þegar við skoðum síðan álit meiri hluta sérnefndar Alþingis sem fjallar um þetta mál kemst hún að þriðju niðurstöðunni. Hún segir að þetta hafi engin áhrif t.d. á stöðu sjávarútvegsins, á fiskveiðiréttinn, atvinnuréttinn sem hefur skapast, sem eru óbein eignarréttindi eins og allir vita. Ég veit að hv. þm. Atli Gíslason gæti flutt hér um það langa og lærða ræðu ef hann svo kýs og ég mundi reyndar hvetja hann til þess að setja sig á mælendaskrá og fjalla dálítið um það vegna þess að þetta er mjög áhugavert mál sem mér gefst þó ekki tími til að fara yfir út í neinn hörgul. (AtlG: Ég er búinn að því.) Aldrei er góð vísa of oft kveðin, hv. þingmaður. Ég held að þetta sé mál sem væri gott að hv. þingmaður hefði yfir enn einu sinni vegna þess að mér heyrist að t.d. félagar hans í þingflokki Vinstri grænna hefðu mjög gott af slíkri lexíu, slíkum fyrirlestri til að átta sig aðeins betur á málinu. Vegna þess að það er í besta falli … (Gripið fram í.) En ekki lært, virðulegi forseti. Það er nefnilega ekki nóg að sitja og hlusta og láta þetta þjóta í gegnum eyrun á sér án þess að nema þar nokkurn tíma staðar milli eyrnanna þar sem það þarf hins vegar að nema staðar og stöðvast þannig að hv. þingmaður geti haft á því skilning. Menn geta reyndar lært suma hluti utan bókar og það getur verið forsenda fyrir því að menn skilji en það er ekki nægjanleg forsenda. Þess vegna þurfa menn stundum að velta þessum hlutum svolítið fyrir sér þannig að menn viti og skilji en kunni ekki bara utan bókar, menn kunna t.d. stundum kvæði utan bókar án þess að skilja upp né niður í merkingu þeirra. Mér heyrist að hv. þingmaður, sem segist hafa hlustað á þetta og numið þetta, hafi ekki þann djúpa og næma skilning sem þarf að vera til staðar til að geta síðan rætt um þetta grundvallarhugtak.

Ég sé hins vegar þegar ég les þetta yfir að þarna eru mjög ólík pólitísk sjónarmið sem einhverra hluta vegna hafa læst saman höndum í þessu meirihlutaáliti og komist að þeirri niðurstöðu að það sem lögspekingar segja sé annaðhvort merkingarlaust eða óljóst — eða óskiljanlegt, svo ég nefni Orkustofnun. Óskiljanlegt, var það ekki, virðulegi forseti, óskiljanlegt hugtak, sagði Orkustofnun? Það vefst hins vegar ekkert fyrir hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að skilja að það þýðir bara algerlega óbreytt ástand, sem hlýtur út af fyrir sig að vera fagnaðarefni sem yfirlýsing af hans hálfu og hv. þm. Ellerts B. Schrams, svo annað dæmi sé nefnt, sem hafa haft uppi ýmis sjónarmið. Með öðrum orðum, ef þetta væri hinn rétti skilningur þá er verið að segja hér að til að mynda fiskveiðistjórnarkerfið standi jafnsterkt eftir sem áður og því út af fyrir sig geri ég ráð fyrir að t.d. Landssamband íslenskra smábátaeigenda og Landssamband íslenskra útvegsmanna muni fagna í ljósi þeirra áhyggjuefna sem þeir láta koma fram í umsögnum sínum.

Á hinn bóginn, sama hvaða huggunarorð koma fram í máli meiri hluta sérnefndarinnar um þetta, sama þó að lögspekingarnir Guðjón A. Kristjánsson og Valgerður Sverrisdóttir og aðrir tjái sig um málið með þessum hætti í áliti sérnefndarinnar, þá er að áliti lögfræðinga og hagsmunaaðila, sem vitaskuld hafa byggt á áliti sérfræðinga, mikil óvissa í kringum þetta. Og hvað þýðir sú óvissa? Hún þýðir það auðvitað að þetta mál, verði það samþykkt fyrir vorið, kallar á málaferli. Menn munu láta reyna á rétt sinn. Óvissa af þessu tagi, lögfræðileg stjórnskipuleg óvissa, mun kalla á málaferli. Þetta mun kalla yfir atvinnugreinar bæði á orkusviði og sjávarútvegssviði sérstaklega, þar sem ég þekki kannski betur til, mikla óvissu sem auðvitað mun þýða stöðnun í þessum atvinnugreinum þar til dómstólar hafa eytt þeirri óvissu. Hér verður stöðnun eins og oft hefur gerst í sjávarútvegi og er m.a. að gerast núna vegna hótana Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um innköllun veiðiheimilda. Menn munu ekki þora að fjárfesta, sérstaklega litlu aðilarnir, veikustu aðilarnir í þessari atvinnugrein munu kikna og gefast upp. Og er það svo að menn ætli að samþykkja hér stjórnarskrárfrumvarp, lög sem kveða á um breytingu á stjórnarskránni, þrátt fyrir að menn viti að það torveldi t.d. nýliðun í sjávarútvegi og geri þeim sem veikastir eru erfitt fyrir? Er það virkilega svo að mönnum sé nákvæmlega sama um þessa hluti þegar til stykkisins kemur? Er þá ekkert að marka þær miklu yfirlýsingar sem hafa gengið í þveröfuga átt frá þingmönnum (Forseti hringir.) Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Frjálslyndra (Forseti hringir.) sem eru ábyrgðarmenn að þessu bulli?