136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:10]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir þessi orð því að við höfum gagnrýnt það sérstaklega í þessum umræðum að í frumvarpinu er verið að fjalla um tvær efnisbreytingar, í 1. gr. og 3. gr. Við höfum sagt sem svo að ef menn vilji fara út í breytingar á þeim grunni sem hér er lagt upp með, á þeim skamma tíma sem er til stefnu og með þeim illa og lélega undirbúningi sem raun ber vitni, eigi þeir að einbeita sér að 2. gr. frumvarpsins, sem lýtur að því hvernig Alþingi framselur til þjóðarinnar vald sitt til að staðfesta stjórnarskrárbreytingar, og að fresta eigi öðru. Það er hárrétt, sem hv. þingmaður segir, að eins og þessum málum er nú háttað er verið að svipta þjóðina valdi til að taka ákvarðanir um 1. gr. Það er verið að loka hana inni í því ferli sem hv. málsvarar frumvarpsins telja helsta gildi þess, þ.e. að verið sé að færa vald til þjóðarinnar. Þá er þetta atriði tekið út og sett, eins og hv. þingmaður sagði réttilega, í þann búning að þingið gæti ráðstafað því þegar fram líða stundir.

Það er engin skynsemi sem býr á bak við að taka þetta ákvæði og setja það í þennan búning en segja svo í hinu orðinu: Þorið þið ekki að bera málið undir þjóðina — þegar þetta er tekið út fyrir og sett í þann farveg sem hér er gert. Ef menn eru þeirrar trúar að leggja eigi þessi mál fyrir þjóðina, af hverju ekki að leggja þetta mál fyrir hana líka? Af hverju er það tekið sérstaklega út úr og sett í þennan búning og lokað inni í því gamla ferli sem menn eru síðan að hallmæla, flutningsmenn frumvarpsins? Ég hef enga skýringu á því, virðulegi þingmaður, og get ekki svarað fyrir það hvernig að þessu er staðið. En ég er innilega sammála hv. þingmanni, virðulegi forseti, um að hér er einkennilega að verki staðið. Hér er hluti af þeim leikaraskap sem er í kringum smíði þessa máls frá upphafi til enda og þess vegna er m.a. ástæða til að vara við því og koma í veg fyrir að það verði samþykkt.