136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:35]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svar hv. þm. Ástu Möller og er henni sammála hvað þetta svar varðar. Ég er líka sannfærður um að nú fara þessi mál að ná í gegn. Þetta verður umræðuefni fólks um páskahátíðina, í fermingarveislum og hvar sem fólk kemur saman núna næstu viku og það er gott. Þá fer málið að skýrast fyrir þjóðinni því við erum að tala um mál sem varðar þjóðina og þjóðskipulagið öllu máli.

Mín spurning í seinna andsvari til þingmannsins er í raun í framhaldi af því svari sem ég fékk: Hver er hin raunverulega ástæða fyrir því að minnihlutastjórnin leggur svo þunga áherslu á þetta tiltekna mál? Hvað gerir það að verkum að minnihlutastjórnin leggur svo mikinn þunga á þetta tiltekna mál? Það held ég að þjóðin þurfi að fá að vita. Hvað er það raunverulega? Teiknimyndin í Morgunblaðinu lýsti því að þjóðarskútan er að fara á hliðina, fyrirtækin og heimilin en þá þarf að hafa þetta sem eitthvert „akút“ aðalmál, þ.e. að breyta grunnlögum þjóðarinnar og útvista verkefni, eins og ég kalla það, útvista verkefni í verktöku frá Alþingi, hinu lögboðna þjóðþingi þjóðarinnar.