136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:39]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðum í þinginu um þetta ágæta stjórnarskrármál eða blessaða stjórnarskrármál kannski öllu heldur. Einstakir þingmenn stjórnarinnar hafa séð sig knúna til að koma upp og býsnast mikið yfir því að hér skuli Sjálfstæðisflokkurinn tala — eins og búið var að telja saman. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafði farið yfir það — í 36 klukkustundir um þetta mál og verið alveg ofboðslega hissa á því. Á sama tíma vitum við að einstakir þingmenn sem núna tilheyra stjórninni en voru áður í stjórnarandstöðu töluðu einir og sér klukkustundum saman um ákveðin mál. Má þar nefna til dæmis málefni Ríkisútvarpsins. Þeir töluðu klukkustundum saman.

Hér er verið að taka saman allan þann tíma sem allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, 26 talsins, hafa talað en ætli það þurfi ekki svona tvo til þrjá eða kannski þrjá til fjóra lengstu ræðutímana í Rúv-málinu til að ná jafnlöngum ræðutíma. Ef ég man rétt töluðu sumir þingmenn þar jafnvel í tíu klukkustundir. Því er alveg ótrúlegt að mönnum þyki þetta vera málþóf í samanburði við það sem þeir áður höfðu (Gripið fram í.) framkvæmd.

Það er hins vegar orðið mjög algengt að hv. þm. Mörður Árnason gangi hérna fram fyrir pontu og grípi fram í fyrir ræðumönnum og vil ég segja það við hæstv. forseta að þetta er náttúrlega alveg óþolandi framkoma. (Gripið fram í: Hann er að reyna að komast í myndavélina.) Hann er alltaf að reyna að komast í myndavélina. Það er réttilega bent á það utan úr sal því hann notar öll trixin í bókinni til að vekja á sér athygli.

Ég tek hins vegar undir með þeim þingmönnum sem hafa talað á undan mér og sagði það í fyrri ræðu minni að mér hafa þótt fjölmiðlar afskaplega slakir í þessu máli. Þá vísa ég sérstaklega til ríkisfjölmiðlanna sem hafa gert mjög lítið í því að greina og fara yfir þær umsagnir og þær athugasemdir sem hafa komið fram um lagafrumvarp þetta. Það er alveg með hreinum ólíkindum. Það er í raun sama hvaða athugasemdir eða hvaða umsagnir farið er yfir, alls staðar eru gerðar miklar athugasemdir við þetta frumvarp. Bæði er það tímaskorturinn eins og fram hefur komið margsinnis. Tímaskorturinn er algjörlega fáránlegur, hæstv. forseti, og engin leið er að átta sig á þeirri mótsögn sem er í þessu frumvarpi, þ.e. að það skuli eiga að koma hér á stjórnlagaþingi til að fara yfir stjórnarskrána en samt skuli gera grundvallarbreytingar á stjórnarskránni áður en stjórnlagaþingið kemur saman. Hvers lags eiginlega mótsagnir og vitleysa er þetta eiginlega? Þetta gengur engan veginn upp. Þó hefur verið bent á það og ég held að það sé rétt sem fram hefur komið hjá hv. þingmönnum að fjölmiðlar séu smám saman að átta sig á innihaldi frumvarpsins og átta sig á innihaldi þeirrar gagnrýni sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft í frammi.

Ég rakti það og hef komið inn á það áður og mér finnst ástæða til að hnykkja á því að þegar hér var skipuð stjórnarskrárnefnd árið 2005 þá samanstóð hún af fulltrúum allra flokka á þinginu. Sú stjórnarskrárnefnd sem þá var hafði sér til fulltingis ráðgjafahóp og í þeim ráðgjafahópi voru Eiríkur Tómasson lögfræðingur, Gunnar Helgi Kristinsson og Björg Thorarensen. Ég held að það sé afskaplega erfitt að segja að eitthvað af þessu fólki sé einhverjir sérstakir vinir Sjálfstæðisflokksins eða séu þar sérstaklega til þess að hygla og halda frammi hans skoðunum í því máli sem þá var til umfjöllunar. Það held ég alls ekki þannig að þarna voru þessir ágætu fræðimenn og fulltrúar allra flokka sem höfðu með þetta mál að gera. En þetta horfir nú ansi mikið öðruvísi við núna í þessu máli því að í fyrsta lagi eru, eins og allir vita, ekki fulltrúar frá öllum flokkum í því að undirbúa þetta mál og það er algerlega ljóst líka að einstakir ráðgjafar sem þarna koma til aðstoðar eru með pólitískan stimpil á sér. Allir sjá að fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar getur ekki talist óhlutdrægur aðili, hlutlaus í þessu máli þó að hún kunni að vera ágætis fræðimaður.

Þá er ljóst að ríkisstjórnin hafði skrifað forskriftina að málinu og sá sem er í rauninni aðalráðgjafinn, og sá sem einna helst hefur haldið á pennanum við að skrifa frumvarpið, er Björg Thorarensen en hún hafði verið beðin um að taka sæti í ríkisstjórninni. En eins og ég segi, ríkisstjórnin skrifaði forskriftina að þessu, gerði samkomulag um það sín á milli hvernig þetta ætti að líta út og síðan voru fengnir aðilar, og þar mun hún vera fremst í flokki, til að skrifa frumvarpið. Þannig er þetta bara. Þar með er ég ekki að segja að þetta sé ekki vandaður og góður fræðimaður. En forskriftin kemur frá ríkisstjórninni, það er algjörlega kristaltært, og það er líka ljóst að búið var að óska eftir því að þessi aðili mundi taka sæti í ríkisstjórninni, sem hún gerði ekki, enda vildi hún taka að sér þetta verkefni og er það gott og blessað. Það breytir því hins vegar ekki að trúverðugleikinn á bak við þetta er náttúrlega orðinn ansi rýr í roðinu.

Ég hef verið að glugga í ákveðna pappíra og það er ljóst að það hefur alltaf verið þannig í gegnum tíðina, eða frá 1953 í það minnsta, að allir flokkar á Alþingi hafa alltaf komið að því þegar farið hefur verið í það að gera breytingar á stjórnarskránni.

Talandi um það vek ég athygli á því að forustumenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt mikla áherslu á þetta í gegnum tíðina og í Andvaragrein, sem birtist 1974, segir Gunnar Thoroddsen, með leyfi forseta:

„Mikils þykir um vert að grundvallaratriðum í stjórnskipun landsins sé ekki haggað að ófyrirsynju heldur hugað vel að breytingum áður en þær taka gildi.“

Þarna er í rauninni lýst því sjónarmiði sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið fram hér í umræðunni. Þá hefur Bjarni Benediktsson sagt í ræðu frá 1953, sem birtist í ritsafninu Land og lýðveldi, með leyfi forseta:

„Ég legg áherslu á að stjórnarskrármálið er mál sem ekki má eingöngu eða fyrst og fremst skoða frá flokkslegu sjónarmiði.“ — Ég undirstrika þetta, hæstv. forseti. „Það er alþjóðamál sem meta verður með langa framtíð fyrir augum en ekki hvað kemur tilteknum flokki að gagni um stundarsakir.“

Síðar í sömu ræðu segir Bjarni:

„Í samræmi við þá skoðun mína að hér sé um alþjóðamál að ræða fremur en flokksmál tel ég, og hef ætíð talið, að það skipti ekki öllu máli hvort stjórnarskrárbreyting yrði afgreidd árinu fyrr eða síðar. Miklu meira máli skiptir að þjóðin áttaði sig til hlítar á um hvað væri að ræða og eftir ítarlegar umræður og athuganir yrðu sett þau ákvæði sem skaplegt samkomulag gæti fengist um svo að hin nýja stjórnarskrá geti orðið hornsteinn hins íslenska þjóðfélags um langa framtíð.“

Það eru ekki bara forustumenn Sjálfstæðisflokksins sem svo hugsa því að Hannibal Valdimarsson orðaði nákvæmlega sömu hugsun og Bjarni í Andvaragrein 1974, en hann sagði:

„Annars er það ekki aðalatriði hvenær endurskoðun stjórnarskrárinnar verði lokið heldur hitt hversu vel tekst til um sjálfa framkvæmd verksins.“

Það er því algjörlega ljóst að hér hefur skapast rík hefð fyrir því að það sé samstaða allra flokka á þingi um að gera stjórnarskrárbreytingar og í hverju þær breytingar eiga að vera fólgnar.

Það hefur einnig komið fram hér, svo ég haldi áfram að tala um þessa fjölmiðlaumfjöllun — afstaða Sjálfstæðisflokksins hefur verið mjög skýr í þessari umræðu og það hefur komið mjög skýrt fram að það beri að snúa sér að þeim verkefnum sem lúta að því að endurreisa heimilin og fyrirtækin í landinu. Það þýðir ekki að segja okkur að við eigum bara að hætta að tala í stjórnarskrármálinu, sem allir þingmenn flokksins hafa djúpa sannfæringu fyrir að sé á algjörum villigötum — þá eigum við að hætta að tala í því máli þvert um hug okkar til þess að hleypa öðrum dagskrármálum að. Þetta er algjörlega fráleitt, hæstv. forseti.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar margsinnis boðist til þess, og lagt það til hér í þinginu, að dagskránni verði breytt þannig að þau málefni og þau mál sem einmitt snúa að endurreisn fyrirtækjanna í landinu og endurreisn heimilanna verði tekin fyrr á dagskrá, verði tekin fram fyrir þetta stjórnarskrármál til þess að flýta því máli því að ekki er hægt að fara fram á það við þingmenn að þeir tali ekki í einstökum málum þvert um hug sinn bara til þess að koma ákveðnum málefnum á dagskrá. Þá er miklu eðlilegra að breyta dagskránni en það kemur náttúrlega skýrt fram hjá stjórnarflokkunum að þeir hafa engan áhuga á að setja þau mál er varða heimilin og fyrirtækin í landinu í forgang. Þeim er alveg sama og það hefur komið fram að þeir telja að við sjálfstæðismenn séum að eyðileggja fyrir okkur vegna komandi kosninga og það má vel vera. En við getum ekki, sjálfstæðismenn, selt sál okkar, við getum það ekki. Það er skylda okkar og við sórum þess eið að gera það ekki heldur standa við sannfæringu okkar og þess vegna getum við ekki verslað með málið eins og stjórnin er að reyna að þvinga Sjálfstæðisflokkinn til að gera.

Hér á undan var verið að ræða um fjölmiðlana eins og ég kom inn á hérna áðan og þá var sérstaklega tekin fyrir myndskreyting sem kom fram í Morgunblaðinu í dag. Ég vissi ekki að aðilar mundu ræða það hér áður en ég kæmi í þennan ræðustól en ég er með, hæstv. forseti, úrklippu sem er náttúrlega mjög lýsandi fyrir þetta, lýsandi fyrir það að ríkisstjórnin hefur engan áhuga á því að setja í forgang aðgerðir til að bjarga heimilunum. Hér er mynd af þjóðarskútunni sökkvandi og í björgunarbátnum eru hæstv. ráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, og hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir. Þau standa í björgunarbátnum og hrópa til fólksins í sökkvandi þjóðarskútunni, með leyfi forseta:

„Engar áhyggjur, við komum aftur til að bjarga ykkur. Við þurfum bara fyrst að skreppa til að breyta stjórnarskránni, eitthvert kjaftæði í sambandi við löggjafar- og framkvæmdarvald. Sjáumst.“

Ég verð að viðurkenna að þetta er sennilega stysti texti sem birst hefur í fjölmiðlum sem lýsir því þó nákvæmlega sem hér er að gerast. Það er verið að beina kröftum í snarvitlausa átt með því að taka ekki sérstaklega á vanda heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Í staðinn er verið að ræða þessar stjórnarskrárbreytingar sem klárlega hefði mátt ná samkomulagi um.

Það hefur þó komið fram, m.a. í leiðara eftir Brynjólf Þór Guðmundsson, sem verður að teljast andstæðingur Sjálfstæðisflokksins ef marka má skrif hans í gegnum tíðina.

Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Þingmenn annarra flokka leggja til fjórar breytingar á stjórnarskránni. Samt er það svo að fjórða breytingin“ — og kemur þá inn á þetta — „um stjórnlagaþing er þess eðlis að hinar breytingarnar geta aldrei orðið annað en skammtímabreytingar á stjórnarskrá. Ef blása á til stjórnlagaþings er galið að sömu stjórnmálamenn og segjast ætla að hlusta á rödd fólksins byrji á því að segja óbeint hvaða atriði eigi að vera í stjórnarskránni.“

Þetta er einmitt það sem ég kom inn á í ræðu minni áðan.

Hann segir svo, með leyfi forseta:

„Best væri að flokkarnir sættust á að gefa báðir eftir og samþykkja einfaldlega að blása til stjórnlagaþings. Það er engin trygging fyrir að stjórnlagaþing skili okkur hinni bestu mögulegu stjórnarskrá en hún gefur okkur alla vega þá trú og von að hægt sé að gera betur.“

Þessi texti undirstrikar náttúrlega, eins og ég kom inn á, mótsögnina í því að ætla að breyta stjórnarskránni og koma svo á stjórnlagaþingi sem hefur það hlutverk að breyta stjórnarskránni.

Af því að hæstv. forseti, Kristinn H. Gunnarsson, er í stólnum ætla ég að vitna í hann, það er oft ágætt að vitna í hann. Hann segir, í ræðu sem hann flutti fyrir nokkrum dögum, með leyfi forseta:

„Það má eiginlega segja að endapunkturinn sé í því frumvarpi sem hér liggur fyrir því að það er nánast fullkomlega ríkisstjórnarmál.“ — Stjórnarskrárbreytingin er ekki breyting sem allir í þinginu standa að heldur er það ríkisstjórnin sem er að knýja málið í gegn. „Þó að það sé ekki flutt af ríkisstjórninni er aðdragandi þess algerlega á vegum ríkisstjórnarinnar.“ — Alveg klárlega, ríkisstjórnin skrifaði forskriftina að þessu máli.“ Eftir að ný ríkisstjórn tekur við skipar forsætisráðherra þriggja manna starfshóp embættismanna sem aðrir stjórnmálaflokkar koma ekkert að. Ég skal ekki fullyrða hvort það er nýjung en það er a.m.k. í samræmi við þessa þróun að einstakir flokkar, flokkar ríkisstjórnarinnar, fara að halda öðrum flokkum frá málinu á undirbúningsstigi. Þá eru menn byrjaðir að rjúfa í sundur grundvallarþráðinn í stjórnarskrárbreytingunum sem er samráð og samstaða um breytingar.“ — Ég tek algjörlega undir þetta.

Svo segir hér:

„Þetta er algerlega orðið ríkisstjórnarmál í þessum búningi sem hér hefur verið undirbúinn. Ég gagnrýni þessa þróun, ég held því ekki fram að þetta sé algert stílbrot frá því sem verið hefur vegna þess að þróun hefur átt sér stað sem leiðir þetta af sér en hér er lengra gengið en áður hefur verið og menn munu halda áfram að ganga þennan veg þar til eitthvað gerist sem stöðvar þessa þróun.

Mér finnst líka að tíminn sem menn hafa gefið sér til að leggja fram ígrundaðar tillögur að stjórnarskránni sé nánast enginn. Það er mjög gagnrýnivert.“

Það sjá það auðvitað allir að afskaplega illa er að verki staðið. Undirbúningurinn er lítill. Hann er eins og hér kemur fram og ég hef sagt áður bæði í þessari ræðu og annarri ræðu, forskriftin er ríkisstjórnarinnar. Það eru fengnir til sérfræðingar sem eru ríkisstjórninni þóknanlegir til að skrifa þessar breytingar á stjórnarskránni og svo er fullkomin mótsögn í því að ætla að koma á stjórnlagaþingi til þess að breyta stjórnarskránni en leggja til grundvallarbreytingar á stjórnarskránni áður en þingið kemur saman.

Þá er það með hreinum ólíkindum, og það hefur líka komið fram, að það var ekkert rætt — og þó að nú sé búið að segja að kjósa eigi til stjórnlagaþings í sveitarstjórnarkosningum er ekkert samráð haft við sveitarstjórnarmenn eða Samband íslenskra sveitarfélaga um það mál. Það er með hreinum ólíkindum enda hefur það verið gagnrýnt af formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það sjá það allir að kosningabaráttan sem á að fjalla um sveitarstjórnarmál verður harla erfið þegar önnur kosningabarátta er í gangi um það hverja eigi að kjósa til þess að sitja stjórnlagaþing. Ég er hræddur um að fókusinn verði á víð og dreif síðustu dagana fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þegar þar að kemur.

Þá hefur það líka verið gagnrýnt, og það er sennilega mjög sérstakt, að í þessu stjórnarskrármáli sáu menn sig knúna til þess að senda álfyrirtækjunum frumvarpið til umsagnar. Á sama tíma hafa ákveðin mannréttindasamtök kvartað undan því að fá frumvarpið ekki til umsagnar. Ég held að þetta lýsi kannski öðru fremur þeim flumbrugangi og þeim ómarkvissu vinnubrögðum sem hér hafa átt sér stað. Mér finnst það kristaltært (Forseti hringir.) að sjálfstæðismenn geta ekki selt sálu sína í þessu máli til þess að breyta dagskránni. Það er mun eðlilegra að dagskránni sé breytt (Forseti hringir.) og þeim málum sem varða heimilin og fyrirtækin í landinu sé komið á dagskrá hið fyrsta.