136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það hefur borið dálítið mikið á því undanfarið að sjálfstæðismenn séu vændir um málþóf og það af fólki sem hefur stundað málþóf á Alþingi mjög lengi og segja má að sannleikanum sé hver sárreiðastur í þeim efnum.

Við ræðum í fyrsta lagi nefndarálit meiri hluta sérnefndar. Þar skrifa undir hv. þingmenn Valgerður Sverrisdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Ellert B. Schram, Guðjón A. Kristjánsson og Atli Gíslason. Enginn af þessum aðilum eru viðstaddir umræðuna, herra forseti, enginn.

Sérstaklega er athyglisvert að formaður meiri hlutans, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, sem er formaður sérnefndar og framsögumaður — hér kemur reyndar hv. þm. Atli Gíslason í salinn — er komin í leyfi og er það mjög undarlegt og eiginlega lítilsvirðing við málið að hv. þingmaður skuli ekki fylgja því eftir til enda og eiginlega alveg furðulegt, finnst mér. Ef ég væri að flytja svona merkilegt mál mundi ég vera vakinn og sofinn í því alla daga.

Í fyrstu ræðu minni um þetta mál hélt ég því fram að í 2. gr. og í 4. gr. eins og búið er að breyta þeim, séu tveir aðilar að breyta stjórnarskránni. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson mótmælti því í andsvari. Nú er hann ekki til staðar. Ég er búinn að spyrja að því tvisvar og ég fæ ekki svar frá hv. þingmanni sem skrifar undir nefndarálitið án fyrirvara. Hann heldur því fram að það séu ekki tveir aðilar að breyta stjórnarskránni samtímis.

Ég mundi gjarnan vilja sjá hann hér við umræðuna, herra forseti, og gerðar séu ráðstafanir til þess því hann er flutningsmaður nefndarálitsins sem við erum að tala um. Svo ættu hv. þingmenn Ellert B. Schram og Guðjón A. Kristjánsson að sjálfsögðu að fylgjast með umræðunni. Þá er það spurningin um hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur. Hún getur illa fylgt málinu eftir vegna þess að hún er ekki við og spurning hvort einhver komi í staðinn fyrir hana. Ég veit það ekki.

Þar sem málið sjálft er flutt af hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur og hæstv. fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, sem og hv. þingmönnum Birki Jóni Jónssyni og Guðjóni Arnari Kristjánssyni, sem jafnframt skrifa undir nefndarálitið, þá finnst mér alveg sjálfgefið að þetta fólk sé líka við umræðuna eða fylgist a.m.k. með henni. Því menn hljóta að sýna málinu þann áhuga.

Talandi um málþóf þá vill svo til að fyrir litlu máli fyrir nokkru síðan, árið 1998, þar sem talsvert var fjallað um að breyta einni stofnun yfir í aðra, breyta Húsnæðisstofnun yfir í Íbúðalánasjóð, talaði hæstv. forsætisráðherra, sem núna vænir menn um málþóf, 49 sinnum um það mál. Í samtals 14,7 tíma, nærri 15 tíma ein um það mál. Ein af þeim ræðum var tíu tímar þar sem farið var um víða veröld, mjög merkilegt met sem ég reyndar held að Castro hafi slegið. En svo kemur þessi sami hæstv. forsætisráðherra og gagnrýnir aðra fyrir málþóf. Þá var bara verið að leggja niður eina stofnun og breyta henni yfir í aðra. En hér erum við að tala um að verið er að búa til kaos í stjórnlagaþingi sem ég ætla að koma betur inn á.

En það sem mig langaði til að nýta tímann til er að minnast á alveg ótrúlegt viðtal í Fréttablaðinu í dag. Talandi um ráðherraræði, herra forseti, það sem gagnrýnt var í mótmælunum í haust að ráðherrarnir stjórnuðu öllu, þá leyfir hæstv. forsætisráðherra landsins sér að segja að þingið þurfi að afsala sér valdi tímabundið. Hún bara segir: Ég stjórna hérna. Löggjafarsamkundan skal sko fara heim. (Gripið fram í: Þetta er bara ofríki.) Þetta er bara ofríki. Þetta er ekki einu sinni eðlilegt. Það stefnir bara í einræði. Í undirfyrirsögn segir, með leyfi forseta:

„Forsætisráðherra segir að þingið ráði ekki við að breyta stjórnarskránni, þess vegna þurfi það að framselja stjórnarskrárgjafarvaldið tímabundið til þjóðarinnar. Fjármálaráðherra skilur ekki í hverju andstaða sjálfstæðismanna er fólgin.“

Herra forseti. Hvað er að gerast hérna eiginlega? Hæstv. forsætisráðherra sem situr með atbeina þingsins gefur þinginu langt nef og segir að það ráði ekki við að breyta stjórnarskránni. Hv. þm. Atli Gíslason ráði bara ekki við þetta. Mér finnst þetta alveg með ólíkindum, herra forseti. Alveg með ólíkindum.

Þá er hv. þm. Lúðvík Bergvinsson genginn í salinn. Hann hefur sagt að það væru ekki tveir aðilar að breyta stjórnarskránni. Ég ætla að nota þann stutta tíma sem ég á eftir til að fara í gegnum það að það eru tveir aðilar ef þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir eftir 1. umr. og umfjöllun nefndar gengur eftir, en í 2. gr. segir, með leyfi forseta:

„Frumvarp til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari má bera upp á Alþingi. Slíkt frumvarp má ekki samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við fjórar umræður og skulu þrjár vikur hið minnsta líða á milli umræðna. Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarpið skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu í leynilegri atkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar.“

Það er sem sagt einn aðili þarna, Alþingi Íslendinga, sem hefur starfað frá 930 með hléum reyndar og er ein dýrmætasta eign Íslendinga. Þó menn geti haft ýmsar skoðanir á einstökum þingmönnum er Alþingi sem slíkt dýrmætasta eignin. Og þarna segir að Alþingi hafi löggjafarvald. En í 4. gr. í breytingartillögum meiri hlutans stendur:

„Við stjórnarskrána bætist nýtt ákvæði um stundarsakir, svohljóðandi.“ — Nú er tíminn að renna frá mér, herra forseti. — „Forseti Íslands boðar til stjórnlagaþings til að semja frumvarp að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands þar sem byggt verði áfram á lýðræðisskipan, réttarríki og vernd mannréttinda.“ — Ég geri athugasemd við þetta orðalag, ég hefði viljað hafa mannréttindi fyrst í anda hv. þm. Atla Gíslasonar. — „Þingið skal koma saman 17. júní 2010 og ljúka störfum eigi síðar en 17. júní 2011 en getur ákveðið að ljúka störfum fyrr.“

Síðan kemur hvernig þingið skulið skipað o.s.frv. og að um kosningu og skipulag skuli mælt fyrir í sérstökum lögum. En svo stendur, með leyfi forseta:

„Áður en stjórnlagaþing samþykkir frumvarp að nýrri stjórnarskrá skal það sent til Alþingis til umsagnar.“

Alþingi veitir einhverja umsögn. Og svo ræður þingið hvort það fer eftir því eða ekki. Síðan skal bera það undir þjóðina í leynilegri atkvæðagreiðslu.

Það eru sem sagt tveir aðilar sem eru að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá á sama tíma, herra forseti. Sjálfstæðismenn vara eindregið við þessu og berjast gegn því. Hvað gerist ef þetta nýja þing ákveður að leggja Alþingi niður? Hvað gerist ef Alþingi bregst við með því að leggja fyrir þjóðina breytingu á stjórnarskrá um að þetta nýja þing og þetta bráðabirgðaákvæði skuli falla niður? Hvað gerist þá? Þá fær þjóðin jafnvel á sama degi tvær tillögur til umfjöllunar um málið.

Menn eru að stefna út í algjört kaos, herra forseti. Nú segir kannski einhver: Ja, en það gerist ekki að nýja þingið ætli að leggja Alþingi niður. Hver getur lofað því? Hver veit hvernig þetta nýja þing verður skipað? Hver veit það? Kannski dettur þeim í hug að þeir séu miklu betri en Alþingi og taka þá undir með hæstv. forsætisráðherra sem segir að þingið ráði ekki við að breyta stjórnarskránni. Það skyldi nú ekki vera að tekið yrði bara undir það og því vísað til þjóðarinnar? Herra forseti. Menn þurfa nú pínulítið að skoða þetta. Við erum að ræða um stjórnarskrána. Í 79. gr. hennar stendur að það sé Alþingi sem breyti henni og enginn annar. Ég er búinn að sverja eið að þessari stjórnarskrá og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson er líka búinn að sverja eið að þessari stjórnarskrá. Við þurfum því að standa vörð um hana og þess vegna geta sjálfstæðismenn engan veginn fallist á það sem hér er verið að gera, enda hafa allir þeir sem veittu um þetta umsagnir, eða mjög margir, annaðhvort sagt að þeir geti ekki veitt umsögn af því tíminn sé svo naumur eða bara lagst gegn þessu, nema náttúrlega BSRB sem er undir stjórn hæstv. heilbrigðisráðherra.