136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:10]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef það sem hv. þingmaður hefur mestar áhyggjur af og lýsir því að ástæðan fyrir löngum umræðum sjálfstæðismanna, hv. þingmanna, sé vegna þess að það séu tveir aðilar sem geti breytt stjórnarskránni, þá er það bara misskilningur, einn stór misskilningur. Og við gætum þá fljótlega leiðrétt þennan misskilning á þann veg að við gætum lokið umræðunni ef þetta er grunnurinn.

Staðreyndin er sú að Alþingi hefur stjórnarskrárvaldið. Alþingi getur breytt stjórnarskránni ef samstaða næst um það með einum alþingiskosningum á milli. (Gripið fram í.) Það er þannig.

Hins vegar er nú verið að leggja til að sett verði á laggirnar stjórnlagaþing sem kosið verði af fólkinu sjálfu í landinu sem kýs inn á þetta þing hvaðan valdið er sprottið. Og hvað má þetta þing gera? Það má leggja tillögu fyrir þjóðina og ekkert verður að veruleika fyrr en þjóðin hefur samþykkt þá tillögu.

Stjórnlagaþingið sjálft hefur ekki sjálfstæðan rétt til að breyta stjórnarskránni. Nei. Stjórnlagaþingið hefur, verði þessar breytingar að lögum, rétt til þess að leggja tillögu um nýja stjórnarskrá fyrir þjóðina í landinu. Það er veruleikinn. Og ef hv. þm. Pétur H. Blöndal telur að það að kjósa til stjórnlagaþings, gefa því rétt til að leggja tillögur fyrir þjóðina, sé brot á stjórnarskránni vegna þess að hann sór að henni eið þá verður hv. þingmaður að rökstyðja mál sitt miklu betur. Hann er augljóslega uppfullur af misskilningi a.m.k. í þeim þætti sem ég heyrði í ræðu hv. þingmanns.