136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þann 25. apríl ætlar þjóðin, herra forseti, að kjósa nýtt Alþingi. Þjóðin ætlar þann 25. apríl að kjósa nýtt löggjafarvald. Það er þjóðin, herra forseti, sem kýs til Alþingis en ekki hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Það er þjóðin sjálf sem kýs þá fulltrúa sína inn á Alþingi. Og þó að flestir flokkarnir séu með óbreytta lista er Sjálfstæðisflokkurinn með mjög breytta lista í þeim kosningum. Ný framboð geta líka komið fram. Það er þjóðin sem kýs Alþingi. Ég undirstrika það og Alþingi fær nýtt umboð frá þjóðinni 25. apríl.

Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins, sem hv. þingmaður leggur til, er það Alþingi sem breytir stjórnarskránni. Þetta er það sem hv. þingmaður lagði til og ber svo undir þjóðina þær breytingar sem Alþingi leggur til. Það er sem sagt Alþingi sem breytir stjórnarskrá samkvæmt 2. gr. frumvarpsins sem hv. þingmaður skrifaði undir.

En samkvæmt 4. gr. þessa sama frumvarps sem hv. þingmaður skrifaði undir hefur stjórnlagaþing líka heimild til að bera undir þjóðina breytingu á stjórnarskránni. Hv. þingmaður er búinn að gera það rugl, herra forseti, að setja tvo aðila á sama tíma til að bera undir þjóðina breytingar á stjórnarskrá. Báðir þessir aðilar eru fulltrúar þjóðarinnar því þjóðin kýs Alþingi 25. apríl næstkomandi. Og þjóðinni er ætlað að kjósa á stjórnlagaþingið. Hv. þingmaður er búinn að búa til, ég mundi segja kaos. Hvað gerir þjóðin ef koma á sama degi breytingar á stjórnarskrá sem hún á að fjalla um?