136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:14]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hafi málflutningur hv. þingmanns verið óskýr í ræðunni þá lagaðist það nú ekki núna. Það er rétt reyndar hjá hv. þingmanni að þjóðin kýs alþingismenn. Og það er rétt líka hjá hv. þingmanni að þjóðin mundi kjósa fulltrúa á stjórnlagaþing. Bæði þessi þing mundu sækja vald sitt til þjóðarinnar hvar uppspretta valdsins er, þannig að fulltrúar á báðum þessum þingum væru þá að minnsta kosti að sækja vald sitt til réttra aðila.

Það sem hér um ræðir er það að Alþingi er ekki með þessu frumvarpi að láta varanlega af hendi rétt sinn til að breyta stjórnarskrá. Á hinn bóginn er verið að leggja til að stjórnarskráin verði endurskoðuð og stjórnlagaþing fái heimild til þess að leggja tillögu um nýja stjórnarskrá fyrir þjóðina. Sú stjórnarskrá verður ekki að stjórnarskrá lýðveldisins fyrr en þjóðin hefur samþykkt það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það væri þá þjóðin sjálf sem mundi taka þá ákvörðun að lögfesta nýja stjórnarskrá. Þannig er þetta hugsað.

En á meðan er Alþingi ekki að afsala sér rétti til þess að breyta stjórnarskránni. Við vitum heldur ekki hvort stjórnlagaþing muni ná saman um að leggja tillögur fyrir þjóðina. (Gripið fram í.) Það vitum við ekki og ekki einu sinni hv. þm. Kjartan Ólafsson sem þó hefur látið í veðri vaka að hann viti sitt lítið af hverju í þessari umræðu.

Virðulegi forseti. Þetta liggur þannig að verið er að leggja til að kosið verði þing til þess að endurskoða stjórnarskrána, þ.e. stjórnlagaþing. Þjóðin kjósi það þing sem hefur síðan tillögurétt eða rétt til þess að leggja tillögur fyrir þjóðina og ef þjóðin fellst á þá tillögu verður komið með nýja stjórnarskrá. Það er enginn annar en þjóðin sjálf sem getur tekið ákvörðun um það.