136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður var gersamlega rökþrota og það sem hann sagði er aumkunarvert. Hann leggur hér til, í tveim greinum, að tveir aðilar geti samþykkt breytingar á stjórnarskránni, báðir kosnir af þjóðinni, einn meira að segja með nýtt umboð, sem verður veitt 25. apríl, og báðir geta lagt fram breytingar á stjórnarskránni og borið undir þessa sömu þjóð. Ef stjórnlagaþingið tekur t.d. sömu afstöðu og hæstv. forsætisráðherra í Fréttablaðinu í dag og segir að þingið ráði ekki við að breyta stjórnarskránni — (Gripið fram í.) má ég svara, hvað ef þetta nýja stjórnlagaþing skyldi vera sömu skoðunar og hæstv. forsætisráðherra og bera það undir þjóðina að taka stjórnarskrárbreytingavaldið af Alþingi, sem það hefur haft frá því 930. Þetta er dýrmætasta eign þjóðarinnar. (LB: Valdið er ekki ...) Ef stjórnlagaþingið skyldi bera þetta undir þjóðina og Alþingi á sama tíma til að verja sig, þetta nýja Alþingi sem er búið að fá nýtt umboð frá þjóðinni — ef þetta nýja Alþingi skyldi á sama tíma leggja undir þjóðina breytingu á stjórnarskránni þannig að stjórnlagaþing verði afnumið, hvernig skyldi það vera í þessu landi, hvað skyldi gerast ef þjóðin ætti að greiða atkvæði um hvort tveggja sama daginn? Ég gef ekki mikið fyrir það. Ég skora á hv. þingmann að fallast á þá tillögu okkar sjálfstæðismanna að stjórnlagaþingið sé ráðgefandi þannig að við lendum ekki svona í kross með þjóðina. Þetta gengur ekki upp rökfræðilega, herra forseti.