136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:32]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Alþingi Íslendinga er stjórnað eftir þingsköpum sem forsetar fara eftir. Það eru þingsköp sem hafa verið ákveðin á Alþingi. Ég hef ekki fyrr í þingmennsku minni heyrt siðameistara Samfylkingarinnar koma hér upp og yfirtaka þingsköpin og segja til um hvernig eigi að fara með stjórn þingsins.

Þetta er kannski eitt af því sem við eigum eftir að sjá þegar stjórnlagaþingið kemur saman eins og hv. þm. Mörður Árnason vill sjá. Stjórnlagaþingið á nefnilega sjálft að búa sér til sínar reglur. Það á sjálft að gera það og það verður fróðlegt að sjá þegar hv. þingmaður Mörður Árnason verður orðinn ritstjóri þingskapa þess þings. Það verður mjög sérstakt, herra forseti.