136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:33]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Mér er það í sjálfu sér ánægjuefni að þingmenn Sjálfstæðisflokksins skuli umhverfast í hvert sinn sem ég kem hér í stólinn og það jafnt hvort sem það er efnisleg umræða sem þá er stunduð eða spurningar um formsatriði eins og sú spurning sem hér var borin fram um hvort ekki væri rétt að ganga eftir því hvort menn væru að biðja um andsvar eða ræður áður en forseti úrskurðaði það með þeim hætti að fjarvera þingmannsins skæri úr um það.

Síðan er hitt sem ég spurði um, hvort það væri siður á þinginu að beðið væri eftir mönnum sem töluðu í símann þegar þeir ættu að vera í ræðustól eins og kom fyrir í gær. Það var hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem þá var næstur á dagskrá en þingheimur og sjónvarpsáhorfendur þurftu að bíða, þeir sem voru að fylgjast með biðu eftir því að Kristinn H. Gunnarsson lyki símtali sínu.

Ég mun nú sennilega ekki eiga sæti á stjórnlagaþingi og stýri þess vegna ekki (Forseti hringir.) þingsköpum þess en ef hv. þingmaður Kjartan Ólafsson vill þá er ég reiðubúinn að ganga í (Forseti hringir.) það verk með honum að undirbúa skynsamleg þingsköp fyrir það þing eða þau önnur sem hann vill (Forseti hringir.) láta halda hér á lofti.