136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:53]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þá ræðu sem hér var flutt. Ég hef hlustað á allflestar ræður þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þingsal og nokkrar aðrar af þingskrifstofu minni. Ég tel að öll sjónarmiðin séu komin fram. Ég tek undir með hv. þingmanni að nú sé kominn tími til að þetta verði tekið fyrir í nefndinni og þau sjónarmið sem komið hafa fram frá Sjálfstæðisflokknum rædd málefnalega.

Ég hef ekki skynjað efnislegan ágreining um 1., 2. og 3. gr. og ég er algerlega ósammála hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni um að sjávarútvegur verði settur í óvissu. Nákvæmlega sama réttarstaða verður uppi. Eins og kunnugt er hafa aflaheimildir færst á tiltölulega fárra manna hendur frá því að kvótakerfið var tekið upp. Það vita allir sem skoða það mál og ég spyr hv. þingmann hvort hann vilji að þær aflaheimildir, og eignarhald þeirra eða nýtingarréttur sem hefur þróast á umliðnum árum, verði háðar einkaeignarrétti. Það er grundvallarspurning. Telur hv. þingmaður e.t.v. að þær séu þegar í dag háðar einkaeignarrétti? Ef þingmaðurinn styður áframhaldandi nýtingarrétt og áframhaldandi óbreytt kerfi er 1. gr. fullkomlega boðleg en ef hv. þingmaður leggur þann skilning í það að hann vilji að þessar aflaheimildir séu háðar einkaeignarrétti, séu það eða verði það þarf það auðvitað að koma skýrt fram því að þá er stór og mikill málefnalegur ágreiningur. Þá erum við að skapa þá réttarstöðu í þjóðfélaginu að örfáir aðilar fari með dýrmætustu auðlindir okkar.