136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig mjög skýrt sjónarmið sem kemur fram hjá hv. 7. þm. Suðurk. Atla Gíslasyni og út af fyrir sig er á vissan hátt léttir að heyra lögskýringu hans í þessum efnum. Hún rímar nokkuð við skýringar meiri hluta sérnefndarinnar sem hefur kveðið upp úr um þetta. Hins vegar hef ég sagt áður og get sagt núna að það vekur nokkra furðu að þeir menn sem hafa talað öðruvísi og skrifa m.a. undir þetta nefndarálit telja að þessi fiskveiðiréttur, hinn óbeini eignarréttur, eigi alls ekki að vera til staðar og það sé einmitt heila meinið í stjórnarskipun okkar og fiskveiðilöggjöf að þessi óbeini eignarréttur sé til staðar.

Hv. þingmaður spurði mig um afstöðu mína í þessum efnum. Ég hef margoft sagt að ég telji það skipta mjög miklu máli fyrir framgang sjávarútvegsins, ef við ræðum hann alveg sérstaklega, að skýr skilgreining á fiskveiðiréttinum sé til staðar, að hann sé nýtingarréttur, ekki einkaeignarréttur, þetta sé nýtingarréttur sem sé framseljanlegur, persónubundinn og einstaklingsbundinn. Það tel ég að skipti mjög miklu máli og þá geta menn lagt til hliðar spurninguna um aflamark eða sóknarmark. Það er í sjálfu sér alveg óháð þessu. Við getum haft framseljanlegan rétt sem er sóknarmark en ég er ekki þeirrar skoðunar að þetta eigi að vera einkaeignarréttur. Ég er þeirrar skoðunar að þetta eigi að vera óbeinn eignarréttur sem leiðir af því að hér sé um að ræða atvinnuréttindi þeirra sem hafa fengið þessar heimildir frá Alþingi og að sá óbeini eignarréttur sem leiðir af atvinnuréttarhugtakinu þurfi þess vegna að vera skýr.

Það sem gerir það að verkum að ég er órólegur yfir þessu ákvæði er að þó að sjónarmið hv. þingmanns sé gott og gilt og sé alveg skýrt hafa engu að síður ýmsir aðrir talað með öðrum hætti. Það er það sem ég hef reynt að leggja áherslu á, að við reyndum að skýra málið og gæfum okkur aðeins betri tíma sem við höfum ekki núna til að ljúka málinu. Ég fullyrði að það er hægt að gera það síðar á þessu ári.