136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:57]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mikilsvert innlegg í umræðuna. Ég verð að vísa hv. þingmanni á ummæli sem fram koma í umsögn meiri hlutans um þetta atriði. Ég hygg að ég sé ekki að tala gegn því eða með sérskoðanir á því. Ég hygg að meiri hluti nefndarinnar hafi haft það sjónarmið sem ég hef hér fært fram og kemur fram í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins.

Því fer víðs fjarri að sú breyting á stjórnarskránni sem þarna er mælt fyrir skapi óvissu fyrir sjávarútveginn. Það eru uppi deilur í þjóðfélaginu um inntak þeirra réttinda sem fylgja aflaheimildum. Þessi breyting mun engu breyta í þeirri lögfræðilegu hugsun. Fyrir mér er það algjörlega kýrskýrt. Það er ekki verið að gera neinar breytingar.

Ef verið er að breyta kvótakerfi, úthlutun aflaheimilda og þessum nýtingarrétti verða breytingarnar að vera málefnalegar, eðlisrökréttar og byggja á jafnræðissjónarmiðum eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, veit fullvel. Það vita allir. Ef á að fara að breyta kerfinu almennt séð og yfir heildina þarf það væntanlega að gerast á lengri tíma og með þróuðum hætti en það er ljóst í mínum augum sem lögfræðings og lögmanns að sjávarútvegur verður ekki í hinni minnstu óvissu þótt þetta ákvæði verði samþykkt.

Svo heyri ég á hv. þingmanni að hann styður 2. gr., þ.e. að breytingar á stjórnarskrá verði lagðar undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel það afar brýnt og tel að við mundum ella missa af tækifæri því að þá verðum við jafnvel að bíða með stjórnarskrárbreytingar næstu fjögur árin. Ég tel afar brýnt að unnið sé að stjórnarskrárbreytingum og eiginlega eru allir þingmenn sem tala hér sammála um að það þarf að gera (Forseti hringir.) breytingar á stjórnarskránni. Við þurfum bara að finna okkur aðferð til þess.