136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:59]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem mér sýnist vera að skýrast í þessari umræðu, og endurtek þá það sem ég sagði um að umræðan getur stundum verið til góðs, jafnvel þótt hún sé ítarleg og ekki kannski síst vegna þess að hún er ítarleg, er að hv. 7. þm. Suðurk., þingmaður Vinstri grænna, lýsir því í raun og veru hér yfir að þessi breyting á stjórnarskránni sé engin efnisleg breyting á núverandi ástandi. Þó að það sé alveg rétt, eins og ég hef margoft lesið upp úr áliti meiri hluta sérnefndarinnar, að sjónarmið hv. þingmanns og meiri hlutans fari algerlega saman fara þau hins vegar mjög í bága við sjónarmið margra þeirra sem hafa stofnað til þessa frumvarps hérna sem hafa lagt á það áherslu að það sé einmitt kjarni málsins, það sé einmitt svo mikilvægt að gera þessar breytingar til að skýra þessa stöðu varðandi nýtingarréttinn, varðandi hinn óbeina eignarrétt. Ég verð þá að álykta sem svo úr því að svo er komið að bæði meiri hluti nefndarinnar og hv. þm. Atli Gíslason, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, hafa talað mjög skýrt séu að segja: Þetta er engin breyting. Við erum ekki að gera neinar efnislegar breytingar, þetta er bara óbreytt ástand, status quo.

Ég geri ráð fyrir því að margir hv. þingmenn sem hafa glapist til að styðja þetta mál verði fyrir miklum vonbrigðum þegar smám saman rennur upp fyrir þeim það ljós að það er sjónarmið þeirra sem ráða ferðinni í þessum efnum að þetta sé engin efnisleg breyting. Það eru bara ekki allir sammála. Þegar hv. þingmaður sagði í lokin að við ættum að sameinast um að gera tilteknar breytingar á stjórnarskránni er ég alveg sammála honum um að við eigum að reyna að gera það í betri friði, betri sátt og með betri tíma og þess vegna hef ég lagt til að við opnuðum á þá breytingu sem kveðið er á um varðandi 79. gr. sem gerir þessar breytingar auðveldari fyrir okkur og við gæfum okkur síðan þann tíma sem við þyrftum sem ég fullyrði að þyrfti ekki að vera nema það sem eftir lifir af þessu ári.