136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:03]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú aðeins bæta við það sem hv. þingmaður las upp úr athugasemdum Davíðs Þórs Björgvinssonar. Hv. þingmaður las þessa tilvitnun, með leyfi virðulegs forseta:

„Ástæða er til að taka þetta fram þar sem heyrst hafa þau sjónarmið að hugtakið“ — þ.e. þjóðareignarhugtakið — „sé merkingarlaust …“

En prófessorinn og dómarinn bætti við — hv. þingmanni sást einhverra hluta vegna yfir það:

„… en svo þarf ekki að vera.“

Kjarni málsins er sá að hann leggur til að við gefum okkur betri tíma. Hann segir líka að þetta sé flókið mál og æskilegt að fram fari á því nákvæm skoðun og hann segir að þetta sé minnisblað, gagn í málið, en hins vegar sé þetta ekki fullbúið mál. Þetta er skoðun dómarans og prófessorsins og ég var einmitt að vísa til þess vegna þess að mér finnst að það skipti miklu máli að okkur sé það ljóst hvað við erum hér að fjalla um.

Hv. þingmaður spurði hvort ég teldi að hægt væri að ná sátt um 1., 2. og 3. gr. frumvarpsins. Já, ég er þeirrar skoðunar að hægt væri að ná sátt um þær en það gerist hins vegar ekki á handahlaupum. Það gerist ekki eftir einhverri fljótaskrift. Það er þess vegna sem ég hef ítrekað í þessari umræðu kallað eftir því að menn settust niður, reyndu að gera þær lágmarksbreytingar sem hægt væri að ná samkomulagi um hér og nú, sem mundi þá líka greiða fyrir því að hægt væri að gera þær breytingar sem menn vildu gera á stjórnarskránni í góðu samkomulagi. Gerðu þær síðar, t.d. síðar á þessu ári, ef hægt væri að ljúka því sem ég tel nú þó að ég geti ekki fullyrt það, í stað þess að hafa þennan óskemmtilega brag á því að breyta stjórnarskránni, eins og við erum að gera hér, í ósætti innan þingsins, í ósætti við fræðasamfélagið að hluta til og í ósætti við fjölmarga hagsmunaaðila sem eiga mjög mikilla hagsmuna að gæta. Mér heyrist að umræðan sé alla vega að þróast á þann veg að menn vilji reyna að raska sem minnstu, til að mynda í rekstrarumhverfi sjávarútvegsins.

Eigum við þá ekki að sammælast um að ganga þannig frá þessu máli að við séum nokkuð sátt og vitum hverju (Forseti hringir.) við erum að breyta?