136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[14:34]
Horfa

Frsm. allshn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þm. Birki Jón Jónsson vil ég segja að það er óþarfi að mála skrattann á vegginn af þessu tilefni. Í skýringum með frumvarpinu frá allsherjarnefnd kemur fram og reyndar í frumvarpinu sem slíku, að ráðherra er heimilað að vísa þessu verkefni til sýslumanna. Það mun hins vegar taka býsna langan tíma að búa það regluverk til og því var ákveðið að fara þá leið að fara til dómstólanna beint, eins og í almennu greiðsluaðlöguninni.

Ég deili áhyggjum hv. þingmanns um að mjög margir þurfi á þessu úrræði að halda. En ég vek athygli á því sem segir í nefndaráliti hv. allsherjarnefndar að það kann að vera að tilkoma þessa úrræðis, greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna, leiði til þess að það greiði fyrir frjálsum samningum skuldara við kröfuhafa utan formlegrar greiðsluaðlögunar. Bara með því að þetta úrræði sé til staðar þá opnist greiðari leið fyrir menn til að fara í frjálsa samninga við kröfuhafa.

Ég tel að þetta geti vel orðið raunin. Við reiknuðum með því að það gætu 1.000–2.000 manns þurft á þessu að halda. Fyrir hverja þúsund einstaklinga sem eftir þessu leita mun kostnaður ríkissjóðs vegna aðstoðarmanns í greiðsluaðlögun vera 200 millj. kr. því í frumvarpinu er sett hámark upp á 200 þús. kr. en ekki 250 þús. kr. eins og upphaflega var áætlað.