136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[14:42]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér eru haldnar stjórnarmyndunarviðræður í miðri umræðu um greiðsluaðlögun. Það er að sjálfsögðu athyglisvert og ágætt að fá það fram að hugur hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar stendur til vinstri stjórnar. Þá er fróðlegt að spyrja hann að því hvort hann hafi ekki áhyggjur af nákvæmlega því sama og hann nefndi í andsvari sínu að við munum kannski leysa málið á forsendum ríkisins.

Það mál sem hér er á ferðinni er mál sem fulltrúar allra flokka standa að, mjög mikilvægt mál og við erum öll sammála um að við þurfum að koma því í gegn, það er eitt af þeim brýnu hagsmunamálum heimilanna sem skipta verulegu máli núna.

En vegna orða hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar og þeirra samræðna sem hér hafa farið fram, sem eru á margan hátt mjög athyglisverðar og snúast kannski einmitt um það sem við eigum að vera að tala um, þá er ég með spurningu til hv. þingmanns, með hliðsjón af hugmyndum framsóknarmanna um niðurfellingu skulda um 20%. Ég vil taka það fram að það er mín skoðun að það sé skylda okkar allra að líta með opnum huga til allra þeirra leiða sem eru til þess fallnar að leysa úr vanda heimilanna. Við getum haft skiptar skoðanir á því hver besta niðurstaðan sé.

En þetta frumvarp gengur dálítið út á að menn átti sig á því hvað viðkomandi fjölskylda getur borgað. Það er spurning kannski hvernig við eigum að líta á þann vanda sem fram undan er. Niðurfærsla á skuldum er eitt en greiðslubyrðin getur engu að síður orðið óbærileg þótt það sé í einstaka tilvikum. Spurningin er því: Telur hv. þm. Birkir Jón Jónsson með hliðsjón af þeim vanda sem nú er að svona ákveðin niðurskurðartala geti ekki líka skapað ákveðin vandræði þegar við erum alltaf að horfa til þess einstaklings sem er með vandamál í hverju og einu skipti? Það væri fróðlegt að heyra hvaða sjónarmið þingmaðurinn hefur í því efni.

Því það er þannig að þótt margir séu í vandræðum núna og hafi kannski verið það um einhvern tíma, þá horfum við fram á að fjölskyldur sem aldrei hafa lent í vandræðum geti gert það nú og átt eftir að koma núna inn á þennan vonda markað. Þá spyr maður á (Forseti hringir.) móti hvort hv. þingmaður haldi að það þurfi að líta sérstaklega á þann vanda sem þar blasir við.