136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[14:46]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé afar mikilvægt að átta sig á því það eru einmitt venjulegar fjölskyldur, heiðarlegt fólk, sem er að lenda í þessum mikla vanda núna. Ég efast ekki um að fyrir marga verða það mjög þung skref að þurfa að leita á náðir dómstóla til að fá úrlausn sinna mála. Þess vegna skiptir miklu máli að þær aðgerðir sem gripið er til séu þannig að verulega sé dregið úr þeim fjölda sem þarf að leita til þessa neyðarúrræðis. Í mínum huga er þetta algjört neyðarrúrræði þegar öll önnur sund eru að lokast. Við stjórnmálamenn þurfum þess vegna að velta því fyrir okkur hvernig við getum komið inn í málið á fyrri stigum.

Hvernig getum við t.d. nýtt hina nýju ríkisbanka okkar betur til að aðstoða fólk sem er í miklum vandræðum en getur samt séð út úr vandanum með einhverju skynsamlegu móti? Ég er viss um að margt af því fólki er mjög kvíðið þessa mánuðina og sér ekki fram á hvernig úr spilast, og er náttúrlega mjög áhyggjufullt yfir því hversu mjög hefur dregið úr eigin fé þess í fasteignum, hvernig það muni komast út úr þessu á skynsamlegum tíma, hvernig það geti leyst úr sínum vanda á tiltölulega skömmum tíma. Til þess að svo verði verða stjórnvöld að stíga mjög ákveðin skref til hjálpar þessu fólki og í því efni finnst mér skynsamlegast að allir flokkar reyni að tala saman um þetta.

Það gleður mig að heyra að hv. þm. Birkir Jón Jónsson sé reiðubúinn að skoða hugmyndir annarra flokka líka. Öðruvísi mun þetta náttúrlega ekki ganga ef menn eru ekki tilbúnir til þess að ræða saman um lausn vandans. Ég lít svo á að hér séum við að lögfesta neyðarrúrræði, úrræði fyrir fjölskyldur sem eru að verða gjaldþrota og það er nokkuð, herra forseti, sem er óbærilegt fyrir marga að þurfa að horfast í augu við, að heimilishaldið sé komið á það stig að þeir þurfi að leita (Forseti hringir.) gjaldþrotaskipta.