136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[15:07]
Horfa

Frsm. allshn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er svolítið merkilegt að sjálfstæðismenn virðast sumir fæddir í gær, eins og sagt er, eða alla vega hafa þeir ekki verið fæddir fyrir 1. febrúar sl. Ég verð að ítreka að það frumvarp sem hér er til umræðu er ekki sett fram til þess að mæta stýrivaxtalækkun, sem var tilkynnt í dag, heldur er það ein af fjölmörgum aðgerðum sem grípa þarf til til þess að mæta kerfishruni og fjöldagjaldþrotum heimila sem eiga sér rætur að rekja langt aftur fyrir daginn í dag, langt aftur fyrir 1. febrúar og aftur til stjórnartíðar og stefnu Sjálfstæðisflokksins á undangengnum 18 árum. Ég þarf líklega ekki að minna hv. þingmann á einkavæðingu bankanna í því samhengi.

Burt séð frá þessu verð ég að segja að ég skil orð hv. þingmanns á þann veg að honum sé ekki ljós sú umfjöllun sem fór fram í nefndinni á milli 1. og 2. umr. og snerist nákvæmlega um það sem hv. þingmaður er að biðja um að aftur verði fjallað um á milli umræðna, þ.e. kostnaðinn við þetta úrræði. Ég vek athygli á því að í nefndaráliti er sérstaklega um þetta fjallað því að nefndin fjallaði ekki um annað á milli umræðna og því fylgir fylgiskjal sem er umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis við frumvarpið eins og það þá var hugsað þegar fyrirhugað var að það yrði flutt sem stjórnarfrumvarp. Í þeirri umsögn er talað um 250 þús. kr. hámark en nefndin gerir í frumvarpinu tillögu um 200 þús. kr. hámark á greiðslu til aðstoðarmanns.

Ég vil vekja athygli á þessu. Ég tel kannski ekki að mikið muni koma út úr því af endurteknu efni að því leyti, (Forseti hringir.) því að þetta er einmitt það sem nefndin var að fjalla um á milli umræðna, hv. þingmaður.