136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[15:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef í nokkrum tilfellum aðstoðað fólk sem er í greiðsluvandræðum og þá meira sem hobbý en líka til að setja mig inn í þessa hluti. Aðalvandinn er að kortleggja skuldirnar. Oft og tíðum er það það eina sem þarf. Þegar búið er að kortleggja skuldirnar kemur kannski í ljós hvernig hægt er að leysa vandann. Ég skora á alla þá sem eru í vandræðum og eru hættir að opna gluggaumslögin — það er fyrsta einkennið að menn hætta að opna gluggaumslögin — að fá sér einhvern góðan mann í fjölskyldunni til þess að kortleggja skuldirnar og draga þá ekkert undan. Þá sjá menn hverjar skuldirnar eru í heild sinni og það er aðalmálið.

Þetta frumvarp er einmitt til þess að taka á því. Þetta frumvarp er aðallega til þess að kortleggja skuldirnar. Það getur vel verið að eftir þá kortlagningu geti skuldarinn ósköp vel staðið við skuldir sínar og þá er engin ástæða til þess að ríkissjóður sé að styrkja hann. Hann getur kortlagt þetta og hann getur staðið í skilum, búið er að aðstoða hann við að sjá fram veginn. Ég held því að nefndin ætti að skoða það með opnum hug að láta skuldarann greiða þetta sjálfan en það yrði þá síðasta krafan sem hann greiddi. Þegar skuldarinn, kannski eftir 20 eða 30 ár, er orðinn skuldlaus mun hann gleðjast yfir því að borga þær 200 þús. kr. sem gerðu honum kleift að verða skuldlaus í stað þess að verða gjaldþrota.