136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[15:15]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Varðandi það sem kom fram í orðaskiptum milli hv. þm. Péturs Blöndals og hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur um þann vanda sem þessu úrræði er ætlað að bregðast við vil ég taka það fram sem minn skilning á þessu frumvarpi, og ég hygg að það hafi verið almennur skilningur allsherjarnefndar, að þeir sem inn í þetta úrræði leita eru væntanlega þeir sem eru í hvað mestum vanda. Ef um er að ræða að fólk, sem við vitum að er rétt, er orðið svo hrætt við gluggapóstinn að það er hætt að opna hann eru önnur úrræði sem eiga að koma á undan þessu. Þetta er neyðarúrræði og það verður að tala um það sem neyðarúrræði. Í þeirri ágætu umræðu sem hefur verið um þetta mál í dag hefur aðeins borið á þeim misskilningi að hér sé um að ræða úrræði sem henti þeim skuldurum sem geta leyst mál sín sjálf. Þetta er ekki hugsað þannig. Við ræddum dálítið mikið í nefndinni hvaða önnur úrræði gætu komið á undan og hvort þetta frumvarp ýtti mönnum af stað til að hugsa betur um hvað hægt væri að gera, bæði auðvitað með almennum aðgerðum sem hafa verið ræddar á vettvangi stjórnmálaflokkanna um hvernig eigi að bregðast við miklum skuldum heimilanna en einnig hvort önnur úrræði kæmu frá nýju ríkisbankastofnununum til að hjálpa heimilunum í landinu og hvernig ríkisbankar og ríkisstofnanir tækju á skuldugum einstaklingum. Það var dálítið áhugavert.

Fyrir nokkrum vikum beindi ég óundirbúinni fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um innheimtuaðgerðir Ríkisútvarpsins sem felast í því að Ríkisútvarpið auglýsti í auglýsingatíma sínum fyrir á að giska þremur vikum að kröfur þeirra sem eru ekki búnir að greiða afnotagjöld sín á ákveðnum tíma yrðu sendar rakleiðis til lögmanna til innheimtu. Hæstv. menntamálaráðherra hafði ekki áttað sig á þessu og ætlaði að kanna málið og ég vonast til þess að hæstv. menntamálaráðherra kanni þessar innheimtuaðgerðir Ríkisútvarpsins vegna þess að þær eru ekki í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar, hvorki þeirrar sem nú situr né þeirrar sem á undan sat, að innheimtumenn ríkissjóðs ættu að fara í varlegri aðgerðir en áður. Það hefur ekki skilað sér hvað varðar Ríkisútvarpið vegna þess að enn þá er lögheimtan núna að innheimta kröfur afnotagjalda beint frá Ríkisútvarpinu án þess að til komi milliinnheimta sem oft er Intrum eða eitthvað slíkt. Aðilar sem eru kannski með 10.000 kr. skuld vegna afnotagjalda við Ríkisútvarpið fá 50.000 kr. kostnað sem ekki er hægt að losna við. Þetta er nokkuð sem við verðum að laga. Þetta má ekki vera svona. Við vorum búin að ákveða að þetta ætti ekki að vera svona. Hvernig stendur á því að Ríkisútvarpið hagar sér með þessum hætti? Þetta er fullkomlega óþolandi og ég treysti því að þeir þingmenn sem hér eru í salnum séu sammála mér um þetta. Þetta er bara dæmi um það að við erum að tala í allar áttir.

Í vikunni kom svo fréttatilkynning frá Landsbankanum um greiðsluaðlögun af hálfu bankans gagnvart þeim sem eru í viðskiptum við Landsbankann og eru í ákveðnum vandræðum. Mér finnst þarna vera komið úrræði sem er pínulítið svar við því sem við í nefndinni héldum að gæti hugsanlega komið fram, að lánastofnanir leituðu leiða til að aðstoða viðskiptamenn sína þannig að þeir lentu ekki í þroti. Landsbankinn ætlar að bjóða upp á óverðtryggð íbúðalán með afar lágum vöxtum. Ég hef reyndar ekki alveg áttað mig á því hvernig þetta fer fram hjá þeim. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að svigrúmið væri svona mikið í Landsbankanum en við hljótum að fá svör við því þegar nær dregur. Hér er samt um að ræða úrræði af hálfu Landsbankans þar sem boðið er upp á greiðsluaðlögun fram í maí 2011. Þá erum við að tala um frjálsa samninga og ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir fólkið hér í landi að það geti leitað til bankans síns og fengið lausn mála sinna þannig að það geti komið sér út úr þessum bráða vanda.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að við þurfum auðvitað að tala kjark í þjóðina og ekki gera meira úr vandanum en nauðsynlegt er, en við þurfum engu að síður að vera raunsæ. Stór hluti fjölskyldna í landinu er í miklum vandræðum með að sjá fram úr vandanum og við verðum auðvitað að koma fram með tillögur og úrbætur handa þeim sem munu gagnast til einhvers tíma. Þetta úrræði er í sjálfu sér nokkuð þungt í vöfum og það stóð aldrei til að það yrði öðruvísi. Þetta er gert með hliðsjón af gjaldþrotaskiptalögunum. Þetta er gert í kjölfar frumvarps um greiðsluaðlögun almennra skuldbindinga sem er í raun og veru breyting á gjaldþrotaskiptalögum þar sem nýr kafli er settur þar inn. Þetta frumvarp er svar við þeim ágalla sem ekki var hægt að leysa í því máli að veðskuldirnar voru þar undanskildar. Þess vegna var þetta frumvarp samið. Ég er stolt af því sem fulltrúi í allsherjarnefnd að nefndin sjálf flytji málið en ekki ríkisstjórnin vegna þess að málið varð til í umræðum í nefndinni. Við ræddum það örlítið við 1. umr. og mér finnst sjálfsagt að taka fram að það kom nokkuð í ljós í meðförum málsins í allsherjarnefnd að nefndinni er nokkur vandi á höndum þegar hún tekur upp málið að eigin frumkvæði, ekki síst þegar um er að ræða mjög táknrænt mál eins og hér er á ferðinni. Við þurftum að sjálfsögðu að fá dómsmálaráðuneytið til að koma að þessu máli, við leituðum til réttarfarsnefndar um það og hún kom að samningu frumvarpsins.

Möguleikar Alþingis til að aðstoða við þetta eru nokkrir en það þarf að bæta þar úr. Það þarf að veita betri stuðning innan Alþingis til að nefndir geti að eigin frumkvæði tekið mál upp ef svo ber undir. Ef málið hefði í þessu tilviki verið tekið upp á vettvangi ríkisstjórnarinnar hefði það aðeins orðið til að hægja á málinu, það hefði bara orðið til þess að málið hefði komið seinna fram. Það var algjör samhljómur um það í allsherjarnefnd af hálfu allra flokka sem þar sitja að þetta mál væri það mikilvægt og brýnt að ekki mætti hægja á því með nokkrum hætti. Ég er mjög þakklát fyrir það, frú forseti, að þetta mál skuli hafa verið tekið til umræðu í dag. Þetta er nokkuð sem við höfum kallað mjög mikið eftir og ég vonast til þess að málið verði fljótt og vel að lögum.

Nú hefur komið fram ósk um það að málið verði tekið inn í nefnd á milli 2. og 3. umr. Ég á von á því að við í allsherjarnefnd munum vinna hratt að því að koma því aftur út úr nefndinni til að úrræðið geti orðið að lögum hið allra fyrsta. Lögin um almenna greiðsluaðlögun tóku strax gildi og þegar hefur stór hópur manna leitað í það úrræði, þúsund manns hygg ég að hafi fyrir nokkrum dögum farið fram á að komast inn í það úrræði, almenna greiðsluaðlögun. Nú skal ég ekki segja hversu margir fara á endanum í gegn. Við áttum alveg eins von á því að fleiri mundu kanna möguleika sína á að nýta þetta úrræði. Það er ekki víst að allir uppfylli skilyrðin sem sett eru.

Við vitum ekki hversu margir munu leita í þetta úrræði en nokkuð hefur verið um það spurt. Við í allsherjarnefnd öfluðum okkur upplýsinga frá Seðlabanka Íslands og víðar að um hvernig við gætum gert okkur grein fyrir því hversu mikill fjöldi þetta er til að geta áttað okkur á þeim kostnaði sem í þessu felst. Það er mjög erfitt um þetta að spá. Bæði vitum við ekki almennilega hver staða heimilanna er nú um stundir og við vitum heldur ekki hver framvindan verður næstu mánuði, hvort þær aðgerðir sem verið er að grípa til dugi til að hjálpa heimilunum eða ekki. Það leiðir af sjálfu sér að miklu fleiri koma þarna að. Þetta ber allt að sama brunni. Núna er nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að bregðast strax við gagnvart þeim sem eru ekki komin í svona brýn vandræði, til að koma í veg fyrir að fjölskyldur þurfi að leita á náðir héraðsdóms og fara í greiðsluaðlögun. Okkar brýna verkefni núna er að leita leiða til að koma í veg fyrir það.

Niðurstaðan í allsherjarnefnd varð að láta þetta úrræði ekki taka gildi fyrr en 15. maí. Fyrst var hugmyndin að það tæki gildi 1. júlí. Það varð ekki mjög vinsælt af hálfu mjög margra þingmanna í allsherjarnefnd og í staðinn fyrir það varð niðurstaðan að það tæki gildi 15. maí. Ég hugsa að mörg okkar hefðu kosið að þetta hefði verið með sama hætti og með almennu greiðsluaðlögunina, að lögin tækju strax gildi. Svo fór ekki. Ég vonast til að tíminn fram til 15. maí verði nýttur mjög vel til að undirbúa þetta úrræði þannig að það muni nýtast mönnum fljótt og vel að þessum tíma loknum og jafnframt að við séum fram til þess tíma farin að velta fyrir okkur almennum aðgerðum til hjálpar fjölskyldum í landinu til að þær þurfi ekki að hitta héraðsdómara og fá tilsjónarmann.

Það var mjög dökk mynd sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson dró upp af þeim fjölskyldum sem þurfa að leita sér slíkrar aðstoðar. Ég er alveg sannfærð um að í hugum margra sem í góðri trú og bjartsýni tóku lán og keyptu íbúðir en hafa núna lent í gríðarlegum greiðsluerfiðleikum og jafnvel tekjutapi er ekkert grín að fara af stað til Héraðsdóms Reykjavíkur og lýsa því yfir að þeir þurfi á umsjónarmanni að halda. Við verðum að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að það fólk sé óþarflega margt. Við þurfum að leita allra leiða til að það geti helst leyst sjálft úr málum sínum á vettvangi frjálsra samninga, á vettvangi lánastofnana í landinu en þurfi ekki að fara í greiðsluaðlögun. Úrræðið er fyrst og fremst til þess fallið að koma í veg fyrir gjaldþrotaskipti og ef það tekst að draga úr gjaldþrotaskiptum í landinu er mikið til vinnandi. En nr. 1, 2 og 3 þurfum við að gera okkur grein fyrir þeim vanda sem við blasir. Við verðum að bregðast við með almennum aðgerðum. Við verðum að leita leiða til að draga úr greiðslubyrðinni til að sem fæstir lendi í því að leita greiðsluaðlögunar fyrir héraðsdómi.