136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[15:27]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frumvarp til laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Ég þakka hæstv. forseta kærlega fyrir að taka þetta mál á dagskrá, hliðra til á þeirri dagskrá sem kynnt hafði verið og fallast á sjónarmið okkar sjálfstæðismanna um að þetta mál yrði tekið til umfjöllunar þannig að hægt yrði að gera það að lögum. Ég lagði sjálfur fram dagskrárbreytingartillögu í gær þar sem ég óskaði eftir því að málið yrði tekið á dagskrá þingsins svo hægt væri að afgreiða það. Sú tillaga mín var felld með atkvæðum allra stjórnmálamanna annarra en þeirra sem eru í Sjálfstæðisflokknum en það er gott til þess að vita að hæstv. forseti hefur skipt um skoðun og ég vona að það sé til marks um viðhorfsbreytingu hjá yfirstjórn þingsins gagnvart þeim málum sem hér þarf að ljúka fyrir kosningar og helst fyrir páska.

Mitt viðhorf í þeirri umræðu hefur verið það að brýnna sé fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu að afgreidd verði frumvörp sem taka á skuldastöðu heimilanna, greiðslugetu og þeim vandamálum sem við þeim blasa og fjölskyldunum í landinu. Sömuleiðis hef ég talað fyrir því að það eigi að forgangsraða á dagskránni í þágu atvinnu og fyrirtækjanna til að reyna að auðvelda þeim að starfa og búa til störf nú þegar um 18.000 einstaklingar ganga um atvinnulausir. Því miður hefur það ekki verið þannig fram að þessu að yfirstjórn þingsins hafi áttað sig á þeim málflutningi okkar sjálfstæðismanna að breytingar á stjórnarskrá munu hvorki gagnast heimilunum í landinu né atvinnu og fyrirtækjunum en við erum loksins farin að ræða um alvörumál.

Hér er frumvarp til laga um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Ég er sjálfur flutningsmaður þessa máls ásamt félögum mínum í allsherjarnefnd. Það er þverpólitísk samstaða um það. Hér er á ferðinni eitt af mikilvægari frumvörpunum sem liggja fyrir þinginu. Hér er lagt til að lögleiddar verði reglur eða úrræði sem eru sambærileg þeim sem fram koma í frumvarpi sem varð að lögum í síðustu viku um almenna greiðsluaðlögun. Það er gríðarlega mikilvægt að heimilin í landinu, fólk sem nú þegar er komið í greiðsluvandræði með íbúðarhúsnæði eða sér fram á fjárhagserfiðleika vegna afborgana af fasteignalánum, fái skýr skilaboð um það úr þinginu að þeim verði hjálpað. Sá málflutningur hefur verið undirliggjandi í þeirri kröfu okkar sjálfstæðismanna að þessi mál séu tekin fyrir.

Það er von mín að þessi viðhorf verði áfram ofan á hjá forseta þingsins. Það eru auðvitað fleiri mál á dagskrá á Alþingi sem gagnast heimilunum, eins og vaxtabætur, og sömuleiðis mál sem varða uppbyggingu atvinnulífsins eins og mál um fjárfestingarsamning vegna álvers í Helguvík. Ég hvet hæstv. forseta þingsins til að viðhafa þessa forgangsröðun og fagna því sérstaklega að það hafi verið gert. Í því felst mikill sigur fyrir okkur sjálfstæðismenn en ekki síður fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.