136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

tekjuskattur.

410. mál
[15:45]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög að þetta frumvarp sé komið til 2. umr. vegna þess að hér er um gríðarlega mikilvægt mál að ræða. Ég tel að það að nota vaxtabótakerfið með þeim hætti sem hér er verið að gera muni skipta tugþúsundir heimila gríðarlega miklu máli. Ég er algjörlega ósammála þeim ræðumanni sem talaði á undan um að hér væri um einhver mistök að ræða vegna þess að við erum að nota vaxtabótakerfið til að endurgreiða heimilunum í landinu þann gríðarlega kostnað sem þau verða núna fyrir út af efnahagsástandinu sem leggst á húsnæðislán þeirra í formi verðbóta. Jafnframt erum við hér á landi með mun hærri vexti á húsnæðislánum en gengur og gerist í ríkjum sem við viljum bera okkur saman við. Í gegnum þetta kerfi notum við vaxtabótakerfið til þess að endurgreiða heimilunum í landinu þennan vaxtakostnað.

Vaxtabótakerfið skilar endurgreiðslunum akkúrat á þá staði sem þurfa mest á þeim að halda. Það er ekki verið að gusa þeim hingað og þangað eins og hv. þingmaður sagði í ræðu sinni hér á undan heldur er með markvissum hætti verið að endurgreiða skuldsettustu heimilunum, sömuleiðis lág- og millitekjuheimilum, þá háu vaxtabyrði og verðbótabyrði sem heimilin bera í dag.

Virðulegi forseti. Með þessari aðgerð er verið að binda slaufuna utan um þá hækkun og þær endurgreiðslur sem verða á þessu ári vegna þess að þetta er ekki fyrsta hækkunin sem gerð hefur verið á vaxtabótunum fyrir árið 2009. Þær voru líka gerðar þegar við samþykktum fjárlögin fyrir síðustu jól. Þá hækkuðu vaxtabæturnar einnig um 2 milljarða. Samtals hækkar vaxtabótaliðurinn og vaxtabótakerfið um 70% á þessu ári, virðulegi forseti. Það munar um minna.

Endurgreiðslurnar fara úr því að vera 5,8 milljarðar eins og þær voru á síðasta ári upp í tæplega 10 milljarða þann 1. ágúst nk. Þetta skiptir heimilin í landinu gríðarlega miklu máli og þetta er ein stoðin í þeirri velferðarbrú sem við ætlum að byggja svo heimilin í landinu komist nokkuð klakklaust út úr þeim ólgusjó sem við erum nú í.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp felur í sér að millitekjuhjón sem hafa hvort sínar 330.000 kr. á mánuði í tekjur og eru með um 15 millj. kr. skuld á húsnæði fá samkvæmt þessu frumvarpi um 45% af vaxtagjöldum ársins í fyrra endurgreidd í gegnum þetta kerfi.

Það má líka nefna að hér eru nýir hópar sem fá vaxtabætur þannig að þetta tekur til fleiri núna en það hefur gert áður. Það má t.d. nefna að hjón sem eru með þessa skuld af sínu húsnæði, 15 millj. kr., fá mörg hver alveg gríðarlegar hækkanir og samkvæmt töflum í fylgiskjali með frumvarpinu er um að ræða tugþúsundir króna í hækkun, í kringum 100.000 kr. og jafnvel upp í 150.000 kr., á vaxtabótum þetta árið.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Enn og aftur fagna ég þessu máli mjög vegna þess að vaxtabótakerfið er akkúrat hentugt núna til þess að endurgreiða heimilunum í landinu þann gríðarlega kostnað og þær búsifjar sem þau verða fyrir vegna hins háa vaxtastigs hér á landi og vegna þeirra verðbóta sem leggjast á húsnæðislánin.

Ég tel að við eigum að nota vaxtabótakerfið við aðstæður eins og nú eru í auknum mæli vegna þess að við höfum þróað þetta kerfi í áranna rás með þeim hætti að það nýtist einmitt þeim heimilum sem þurfa mest á þessari endurgreiðslu að halda.