136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:28]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir þessar spurningar. Ég verð að upplýsa hv. þingmann um að hann hefur sannarlega valdið mér vonbrigðum. Hann nefnir sérstaklega að formsatriðin séu að vefjast fyrir mörgum, þar á meðal mér, en þau skipta einfaldlega máli, hæstv. forseti. Formsatriðin skipta máli vegna þess að á svo skömmum tíma sem við ræðum nú getum við ekki vitað afleiðingar þeirra breytinga, og ég tala nú ekki um breytingartillagna, sem komu síðar, sem verið er að leggja til hér.

Ég er fyllilega sammála hv. þingmanni um að málið ætti að fara aftur í nefndina. Ég legg hér með til að við frestum 2. umr., leggjum málið í nefndina og reynum að fá niðurstöðu þar.

Varðandi efnisatriði skal ég segja, hæstv. forseti, að ég er ekki á móti því að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar. Ég held að það sé í lagi að skoða þá breytingu og þá í anda þess sem rætt var árið 2007. Ég held að það sé alla vega skynsamlegt að skoða það. Varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna, af því að ég fjallaði ekki um það í ræðu minni, þá er ég líka hlynnt henni en ég hef efasemdir í útfærslu og leiðir í því og vil gjarnan skoða og vega og meta og fá mér reyndari menn og konur og fordæmin annars staðar frá til að vita hvernig best sé að standa að því. Ég hef efasemdir um prósentur og hlutföll sem kveðið er á um og útfærsluna sem skilgreind er.

Varðandi 1. gr. þá svara ég í seinna andsvari.