136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:39]
Horfa

Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er á mælendaskrá og óska eftir því að flutningsmenn þessa frumvarps verði viðstaddir þegar ég flyt ræðu mína því að ég mun bera fram ákveðnar spurningar sem ég óska eftir að þeir taki þá afstöðu til. Satt að segja sé ég ekki að það sé eðlilegt að við séum þegar klukkan hallar í sex daginn fyrir skírdag áfram að fjalla um þetta mál. Það er ljóst að umræðunni lýkur ekki í dag, enginn flutningsmanna er viðstaddur og úr meiri hluta sérnefndarinnar eru einungis tveir hv. þingmenn í salnum þar sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson er nýkominn til að vera við umræðuna og býð ég hann velkominn.

Mér finnst eðlilegt að við sýnum þjóðinni, stjórnarskránni og Alþingi þá virðingu að fresta nú þegar umræðum um þetta mál.