136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:49]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S):

Frú forseti. Hv. þm. Atli Gíslason er búinn að koma a.m.k. í tvígang í dag í þennan stól í andsvörum og segja umræðuna um stjórnarskrármálið tæmda. Samt gerðist það áðan í síðustu ræðu hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur að hún las orð hæstv. fjármálaráðherra frá blaðamannafundi hans og hæstv. forsætisráðherra í gær og af þeim orðum hæstv. fjármálaráðherra verður ekki annað ráðið en að fjármálaráðherra, þó að hann segist hafa fylgst með umræðunni sem ég dreg ekkert í efa, skilji ekki um hvað ágreiningur okkar sjálfstæðismanna snýst. Það hlýtur auðvitað að þýða það að við sjálfstæðismenn verðum að herða róðurinn í því að tala hér úr því að hæstv. fjármálaráðherra skilur ekki um hvað þessi umræða snýst.

Nóg skildi hann í nákvæmlega sambærilegri stöðu árið 2007. Ég hef hér í tveimur ræðum vitnað í orð hans og orð hv. þingflokksformanns Vinstri grænna, Jón Bjarnasonar, sem þeir létu falla á þeim tíma þegar þáverandi meirihlutastjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks viðhafði nákvæmlega sömu ólýðræðislegu vinnubrögðin og þessi stjórn viðhefur nú.

Í tvígang hef ég kallað eftir því frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni og hæstv. fjármálaráðherra hvað hafi breyst. Þeir hafa í hvorugt skiptið orðið við þeim tilmælum mínum og ég ætla ekki lengur að elta ólar við það heldur segja hér og nú að það má í raun og veru virða þá fyrir það að reyna ekki með einhverjum vandræðalegum skýringum að útskýra að það hefur auðvitað ekkert breyst annað en það að nú eru þeir í stjórnarmeirihluta eða réttara sagt í ríkisstjórn og njóta stuðnings og þá eru þessi vinnubrögð sem svo fordæmd voru á þeim tíma orðin allt í lagi. Það er auðvitað eins og hvert annað lýðskrum að blanda þessari formhlið málsins saman við þær breytingar sem verið er að leggja fram.

Í trausti þess að kannski sé hægt að útskýra þetta fyrir hæstv. fjármálaráðherra — af því að hann var að ganga í salinn og mér sýnist hann vera hér í hliðarsal — þá snýst ágreiningurinn um það sem við sjálfstæðismenn erum núna búin að eyða u.þ.b. 40 klukkustundum í og munum halda áfram að tala um þangað til ljósið rennur upp fyrir ríkisstjórninni, að við ætlum ekki og við munum ekki sætta okkur við það fyrr en í rauðan dauðann að hér verði knúin fram í fyrsta sinn í hálfa öld stjórnlagabreyting án þess að um hana sé þverpólitísk samstaða. Og ég trúi ekki öðru fyrr en hreinlega reynir á það að ríkisstjórnin ætli að gera það. Ég bara trúi því ekki.

Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir kallaði eftir viðveru forsætisráðherra í þessari umræðu. Henni var bent á að sú viðvera væri ekki nauðsynleg því að enda þótt hæstv. forsætisráðherra væri 1. flutningsmaður þess frumvarps sem við ræðum væri verið að ræða nefndarálit meiri hlutans og hér væru fulltrúar úr nefndinni. Auðvitað er ýmislegt til í þessu, ekki ætla ég að mótmæla því, en það sem vegur þyngra og það er þess vegna sem það skiptir svo miklu máli að hæstv. forsætisráðherra sé á staðnum eða a.m.k. að við höfum einhverja vitneskju um að hún sé að fylgjast með — raunar er hún víst ekki langt undan, ég vona að hún heyri orð mín — er sú staðreynd að forsætisráðherra á hverjum tíma, hvað sem hann heitir, úr hvaða flokki sem hann kemur, er ákveðinn sáttasemjari í málum af þessum toga.

Ég og hæstv. forsætisráðherra áttum dálítið snarpa orðræðu í andsvörum hér síðastliðinn föstudag af því að þá kom það skýrt fram hjá hæstv. forsætisráðherra að mínu mati að forsætisráðherra virðist ekki gera sér grein fyrir hinu mikilvæga sáttasemjarahlutverki sínu í þessu efni. Þvert á móti kom fram í andsvarinu að hún teldi tíma til kominn að knýja fram stjórnarskrárbreytingu í andstöðu við stærsta þingflokkinn á Alþingi og þeim ummælum fylgdi að við sjálfstæðismenn skyldum nú aldeilis fara að átta okkur á því, ef við værum ekki búin að því, að við værum í minni hluta. Og þessi orð eru búin að klingja hér úr munni stjórnarsinna og þeirra flokka sem styðja stjórnina til misgóðra mála að við sjálfstæðismenn ættum nú aldeilis að fara að horfast í augu við þá staðreynd.

Ég held, virðulegi forseti, að við sjálfstæðismenn gerum okkur það ákaflega vel ljóst að við erum í minni hluta en við gerum okkur það líka jafn vel ljóst, af því að við höfum verið svo lengi í meiri hluta með dyggum stuðningi ýmissa annarra flokka — allra nema Vinstri grænna, þeir eru eini flokkurinn sem er saklaus og frjáls og óspilltur af því að hafa nokkurn tímann stutt Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn — við gerum okkur algjörlega grein fyrir því hvaða ábyrgð það setur á herðar ríkisstjórnar að vera í ríkisstjórn. Það er nákvæmlega þetta sáttasemjarahlutverk. Hvað gerðist 2007? Það var nákvæmlega þetta. Þá hlustaði ríkisstjórnin. Umræða minni hlutans þá, sem jafnvel hefur verið kallað málþóf af okkar hálfu alveg eins og meiri hlutinn núna kallar þá umræðu sem fram fer hjá okkur málþóf, varð þess engu að síður valdandi að ríkisstjórnin sá að sér. Hún sá að sér og hætti við að knýja fram breytingu á stjórnarskránni í andstöðu við þingflokka á þinginu. Hún áttaði sig á að það borgaði sig ekki að fara í þann slag.

Munurinn þá og nú er sá að þá hlustaði ríkisstjórnin og þá gerði ríkisstjórnin og hæstv. þáverandi forsætisráðherra sér grein fyrir því sáttasemjarahlutverki sem hann hefur. Hæstv. núverandi forsætisráðherra virðist ekki gera sér grein fyrir þessu hlutverki sínu. Þvert á móti hefur hún látið þau orð falla að þetta skuli í gegn, hvað sem tautar og raular. Á meðan hæstv. ríkisstjórn, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra gera sér ekki grein fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að láta þessi vinnubrögð yfir sig ganga munum við sjálfstæðismenn halda áfram að reyna að útskýra þetta fyrir þessum hæstv. (Forseti hringir.) ráðherrum.