136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:59]
Horfa

Herdís Þórðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við í 2. umr. enn og aftur um stjórnarskrá Íslands. Við sjálfstæðismenn höfum tekið þátt í umræðunni og höfum haft skoðun á málinu. Við höfum gagnrýnt allan aðdraganda og málsmeðferð frumvarpsins, þar á meðal skort á samráði og hroðvirknisleg vinnubrögð. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar og þeir sem verja hana falli, Framsóknarflokkurinn, hafa sýnt því afar lítinn skilning þegar við höldum þessum sjónarmiðum á lofti og hafa gefið í skyn að á bak við gagnrýni okkar og varnaðarorð búi einhverjar annarlegar hvatir, eins og kom fram í máli hv. þingflokksformanns Framsóknarflokksins í umræðunni í gær og í fyrradag er hún sagði að við sjálfstæðismenn héldum þinginu í gíslingu.

Virðulegi forseti. Þetta eru makalausar fullyrðingar hjá hv. þingmanni og fannst mér keyra um þverbak í beinni útsendingu frá Ísafirði, sem Ríkisútvarpið sendi út, þegar frambjóðendur í Norðvesturkjördæmi voru þar með stjórnmálafund, og hæstv. forseti Alþingis leyfði sér að saka okkur sjálfstæðismenn um að halda þinginu í gíslingu. Ég spyr: Hver er merking orðsins að halda einhverjum í gíslingu? (Gripið fram í.) Við urðum svo aldeilis vör við það í byrjun janúar þegar svokölluð búsáhaldabylting stóð yfir og fjöldi fólks fjölmennti á Austurvöll til að mótmæla ríkisstjórninni. Hafi ég einhvern tíma upplifað að manni væri haldið í gíslingu þá var það á þeirri stundu. Það var á þeirri stundu þegar þinghúsið var umlukið lögregluþjónum og sérsveitarmönnum, gráum fyrir járnum má segja, með skjöld og annað sér til hlífðar fyrir árásum frá fólkinu. Hér máttum við þingmenn vera inni í þinghúsi og fylgjast með öllum þessum látum sem gengu á þegar húsið var grýtt að utan. Það var ömurleg upplifun, hæstv. forseti, að verða vitni að þeim atburði. Þess vegna segi ég: Orðið gísling — mér fannst ég vera í gíslingu þegar við þingmenn þurftum að fá lögreglufylgd til að komast út úr húsinu.

Hæstv. forseti. Ég vil í þessu sambandi þakka hæstv. forseta fyrir að verða við viðleitni okkar sjálfstæðismanna að greiða fyrir dagskránni og taka mál nr. 5 og 6 á dagskrá um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafa á íbúðarhúsnæði og frumvarp um tekjuskatt. Ég þakka að hlustað var á okkur og tekið mark á sjónarmiðum okkar.

Hæstv. forseti. Það ber að vanda vel til breytinga á stjórnarskrá og það er ekki leyfilegt í lýðræðisríki að hrapa að breytingum á sjálfri stjórnarskránni sem hefur að geyma grundvallarlögin um þjóðskipulag okkar, eins og kom fram í fyrri ræðu minni aðfaranótt laugardags en þá ræddum við um stjórnarskrá Íslands í þinginu.

Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipulags íslenska lýðveldisins. Stjórnarskráin á að vera hafin yfir pólitískt þras. Áður en ég tók sæti á Alþingi Íslendinga hélt ég að ég ætti ekki eftir að upplifa það sem ég hef upplifað núna síðustu daga, að þurfa að þrasa um stjórnarskrá Íslands. Ég vil jafnframt segja að við erum að brjóta áratugahefð. Stjórnarskrá Íslands var breytt 1991, 1995 og 1999. Ég vil einnig segja fólki sem hlustar á mál mitt að stjórnarskráin mælir annars vegar fyrir um reglur er fjalla um vald handhafa ríkisvalds, þ.e. löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, og hins vegar um mannréttindi borgaranna og þær takmarkanir og skyldur sem hvíla á handhöfum ríkisvalds gagnvart almenningi í landinu. Þess vegna, virðulegi forseti, er það illa til fundið hjá ríkisstjórninni að keyra slíkar breytingar í gegnum þingið á síðustu dögum þess og afgreiða málið eins og um flýtimeðferð væri að ræða.

Hæstv. forseti. Allir sem hafa tekið til máls af hálfu okkar sjálfstæðismanna hafa bent á að sátt verði að vera um breytingarnar á stjórnarskránni eins og kemur fram í flestöllum umsögnum um frumvarpið, en þær eru í kringum 30 talsins. Flestallir umsagnaraðilarnir koma fram með alvarlegar athugasemdir sem stjórnvöldum ber að hlusta á. Hvað eru þeir aðilar sem gefa okkur umsagnir annað en þverskurður af þjóðinni?

Í umræðunni í þinginu síðasta laugardag flutti hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar mjög athyglisverða ræðu og mig langar að vitna í þá ræðu, með leyfi forseta, en þar segir Kristinn:

„Ég leggst eindregið gegn því, virðulegi forseti, að halda áfram á þeirri braut að gera breytingar á stjórnarskránni í miklum ágreiningi. Sérstaklega finnst mér fráleitt að ætla sér að fara í gegn með efnislegar breytingar núna á stjórnarskránni í andstöðu við stærsta þingflokk Alþingis. Ég held að það séu engin dæmi um slíkt og það væri mikið ógæfuspor ef þingið færi inn á þá braut.“

Þarna er hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson á sama máli og við sjálfstæðismenn sem höfum verið að reyna að koma máli okkar á framfæri. Okkur hefur tekist það býsna vel því stjórnarliðar kvarta sáran yfir því að við skulum koma hingað í stólinn og tjá okkur um stjórnarskrána og mér finnst mér skylt að koma sjónarmiðum mínum á framfæri.

Ég vil jafnframt geta þess að mér finnst ekki við hæfi þegar verið er að tala um stjórnarskrá Íslands að segja að við séum í málþófi. Sú venja hefur verið að breytingar á stjórnarskránni hafa yfirleitt verið gerðar að undangengnu samráði allra flokka eins og ég kom inn á áðan.

Hæstv. forseti. Í þessu sambandi langar mig til að vitna í orð Bjarna heitins Benediktssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, sem komu fram í ræðu frá 1953, fyrir um 56 árum. Sú ræða birtist í ritsafninu Land og lýðveldi, en hann sagði, með leyfi forseta:

„Ég legg áherslu á að stjórnarskrármálið er mál sem ekki má eingöngu eða fyrst og fremst skoða frá flokkslegu sjónarmiði. Það er alþjóðamál sem meta verður með langa framtíð fyrir augum en ekki hvað kemur tilteknum flokki að gagni um stundarsakir.“ — Ég vek athygli á því. Síðar segir Bjarni:

„Í samræmi við þá skoðun mína að hér sé um alþjóðamál að ræða fremur en flokksmál þá tel ég, og hef ætíð talið, að það skipti ekki öllu máli hvort stjórnarskrárbreyting yrði afgreidd árinu fyrr eða síðar. Miklu meira máli skipti að þjóðin áttaði sig til hlítar á um hvað væri að ræða og eftir ítarlegar umræður og athuganir yrðu sett þau ákvæði sem skaplegt samkomulag gæti fengist um svo að hin nýja stjórnarskrá geti orðið hornsteinn hins íslensks þjóðfélags um langa framtíð.“ — Tilvitnun lýkur í þennan öfluga og framsýna stjórnmálamann sem við Íslendingar áttum.

Virðulegi forseti. Fulltrúar flokkanna í sérnefnd um stjórnarskrármál hafa skilað breytingartillögum og nefndaráliti þar sem er að finna nýjar tillögur um stjórnlagaþing, gerólíkt því sem gert var ráð fyrir í upphaflegu frumvarpi þessara flokka. Í 4. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um stjórnlagaþing er hugmyndin sú að stjórnlagaþing skipi 41 þjóðkjörinn fulltrúa og jafnmarga til vara. Stjórnlagaþing á að hafa það hlutverk að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Lagt er til að kosið verði til stjórnlagaþings samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2010 og komi saman 17. júní 2010 og ljúki störfum eigi síðar en 17. júní 2011. Ég er sammála því sem komið hefur fram í umræðum við 2. umr. að þegar málið er betur skoðað finnst mér óráð að blanda saman sveitarstjórnarkosningum og stjórnlagaþingi. Ég tel af og frá að rugla þessum tveimur hlutum saman. Almenn þjóðfélagsumræða um stjórnlagaþing hefur ekki farið fram með fullnægjandi hætti. Almenningur í landinu veit ekki nákvæmlega hver hugmyndin að baki stjórnlagaþingi er. Ég tel að mikið vanti upp á að allur almenningur hafi fulla sýn á það sem hér er verið að leggja til. Gefa þarf þjóðfélagsumræðunni um stjórnlagaþing meiri tíma.

Hæstv. forseti. Mig langar til að vitna í ræðu Jóns Bjarnasonar, sem hann flutti vorið 2007 þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ætlaði að knýja fram breytingar á stjórnarskránni, en fleiri hv. þingmenn hafa vitnað í þessa ræðu og ég hef látið hv. þm. Jón Bjarnason vita af því að mér hefði fundist eins og hann væri með okkur sjálfstæðismönnum í liði í dag miðað við þau orð sem hann lét þá falla. Með leyfi forseta, vitna ég í ræðu hans:

„Hér hefur komið fram að með þessum vinnubrögðum er á vissan hátt brotin hefð eða a.m.k. góðar vinnureglur og siðvenjur sem hafa ríkt um stjórnarskrárbreytingar almennt, þ.e. að þær séu unnar og undirbúnar í samkomulagi þingflokka á Alþingi hverju sinni og að þar sé ekki flanað að breytingum eða lagðar fram óunnar eða lítt unnar tillögur eins og hér er verið að gera. Það hefur verið hyllst til að ná víðtæku samkomulagi um grundvallarbreytingar, um breytingar á stjórnarskránni, og þá frekar verið gætt íhaldssemi í þeim efnum til að fara þar ekki fram með ósætti. … Það verður því að teljast furðulegt að ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, skuli undir lok kjörtímabilsins fara fram hjá stjórnarskrárnefnd með einhliða tillögur eins og hér er um að ræða.“

Þetta sagði hv. þm. Jón Bjarnason vorið 2007. Nú horfir málið öðruvísi við hjá honum þegar hann og Vinstri grænir eru komnir til valda. Hvað er verið að gera? Er ekki verið að reyna að keyra fram breytingar af fullum þunga? Ég verð ekki vör við annað. Hér erum við á miðvikudegi, deginum fyrir skírdag, og mér er sagt að aldrei í þingsögunni hafi verið haldinn fundur á Alþingi Íslendinga á miðvikudeginum fyrir páska. Við erum því að brjóta hefð.

Hæstv. forseti. Það skiptir máli að ná samkomulagi um þetta mál. Það skiptir máli fyrir land og þjóð. Það skiptir máli fyrir fólkið sem býr í landinu að ekki sé flanað að breytingum á stjórnarskrá Íslands. Í frumvarpinu eru lagðar til ferns konar breytingar á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Í fyrsta lagi að bætt verði við hana nýrri grein sem fjallar um eignarhald og nýtingu á náttúruauðlindum sem ekki eru háðar einkaeignarrétti sem og ákvæði um rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og líffræðilegri fjölbreytni sé viðhaldið. Hæstv. forseti, mig langar að vitna í þá sem hafa gert athugasemdir við þessa 1. gr.

Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu — sem aðrir þingmenn hafa gert grein fyrir og mér er líka skylt að gera, þó að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins séum 26 þá megum við og höfum leyfi til að vitna í þá fræðimenn sem setja fram skoðanir sínar — segir, með leyfi forseta:

„Veittur var frestur til 20. mars til að skila inn umsögn. Þennan frest verður að telja fremur skamman þegar umfang málsins er haft í huga.“ — Alveg eins og kom fram í ræðu minni áðan. Okkur ber skylda til að gefa þessu góðan tíma og flana ekki að neinu.

Sigurður Líndal, prófessor í lögræði, segir, með leyfi forseta:

„Ég tel að skoða þyrfti 1. gr frumvarpsins betur vegna óljósrar merkingar orða og hugtaka sem þar eru notuð. …

Ég tel … því rétt að fella brott 1. gr. þannig að betra tóm gefist til að huga að því hvernig slíkum yfirlýsingum verði fyrir komið ef á annað borð þykir rétt að hafa slíkt í stjórnarskrá.“

Við höfum fengið að heyra umsagnir frá fleiri aðilum. Ég vitnaði í fyrri ræðu minni í Landssamband íslenskra útvegsmanna og ég ætla að gera það aftur, með leyfi forseta:

„Breyting á stjórnarskránni krefst vandaðs undirbúnings og því teljum við rétt að lengri tími verði tekinn til að undirbúa þær en hér er gert ráð fyrir. “ — Allar umsagnir taka undir þetta sama, lengri tími. — „Við leggjumst alfarið gegn því að þær breytingar sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins nái fram að ganga. Það er mikilvægt fyrir íslenskan sjávarútveg að búa við stöðugt laga- og rekstrarumhverfi en þetta frumvarp gengur þvert þar á.“

Hæstv. forseti. Með því að koma þessu þarna inn erum við að setja þessa atvinnugrein, sjávarútveginn, í uppnám.

Hæstv. forseti. Við sjálfstæðismenn viljum breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar. Sjálfstæðisflokkurinn telur engu að síður þörf á að breyta stjórnarskránni á ígrundaðan hátt og hefur lagt fram tillögur í þeim efnum. Til að liðka fyrir slíkum breytingum og skapa svigrúm fyrir vandað verklag telja sjálfstæðismenn eðlilegt að breyta 79. gr. Tillaga Sjálfstæðisflokksins kveður á um að breytingar á stjórnarskrá eigi að leggja fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef farin verður sú leið á yfirstandandi þingi að endurnýja samþykki Alþingis strax eftir kosningar verður hægt að setja hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá í vandaðan farveg og leggja þær svo í dóm kjósenda.

Hæstv. forseti. Alþingi á að setja almenn lög um þjóðaratkvæðagreiðslu frekar en setja hana inn í stjórnarskrá. Það er minn skilningur á þessu þegar ég er búin að fara yfir þetta. Breyting á stjórnarskrá snýst ekki um bankahrunið sem kom upp í haust eins og hefur komið fram í umræðunni. Fyrir liggur skýrsla um það frá finnskum sérfræðingi sem segir að löggjöfin sjálf hafi ekki orðið til þess að bankarnir hrundu. Það er ótrúlegt að segja að allt sé Sjálfstæðisflokknum að kenna sem aflaga fer í þjóðfélaginu. Eftir 18 ára valdasetu var hann ekki einn við völd, frú forseti. Hverjir leiddu hann til valda? Það var Framsóknarflokkurinn, Alþýðuflokkurinn og Samfylkingin. (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki — og ég kem enn og aftur að því — verið einn við völd. Þessir flokkar hafa leitt hann til valda.