136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:30]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst dálítið athyglisvert það tal sem var uppi áðan í ræðu hv. þingmanns um að það væri verið að taka völdin frá Alþingi. Hvaðan koma völdin? Tilheyra þau Alþingi sem stofnun? Eiga einhver völd að vera föst innan þessara veggja og lifa hér sjálfstæðu lífi? Nei, völdin koma frá þjóðinni. Allt vald sprettur frá þjóðinni í raunverulegu lýðræðisríki.

Ég hef sem mikill þingræðissinni aldrei átt í neinum vandræðum með að þjóðin tæki til sín stór og mikilvæg mál milli kosninga ef svo bæri undir. Valdið kemur þaðan hvort sem er og á að koma þaðan. Það sprettur ekki út úr brjóstum stjórnmálamannanna sjálfra. Það tilheyrir ekki stofnun. Það á ekki lögheimili innan einhverra grárra veggja. Það kemur frá þjóðinni. Það ættu hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins að hafa í huga.

Þrátt fyrir þingræðisskipulag okkar og þrátt fyrir mikilvægi þessarar stofnunar hér sem mér þykir vænt um og hef eytt miklum tíma á hennar vegum, stórum hluta ævi minnar, á ég í engum vandræðum með að þjóðin taki til sín og ákveði með lýðræðislegum hætti í almennum atkvæðagreiðslum mikilvæg mál eða að þjóðin taki í sínar eigin hendur að semja sér stjórnarskrá. Það er ekki í neinni mótsögn við þingræðis- og fulltrúalýðræðisfyrirkomulagið sem við búum við. Það er ekki þannig að lýðræðið megi bara vera virkt á fjögurra ára fresti, að það sé eitthvað að því að það sé virkt alla daga. Það er ósk fólksins í dag.

Varðandi stöðu forseta Íslands er ég út af fyrir sig sammála hv. þingmanni um að það þarf að fara yfir embættið, skýra betur stöðu forsetans og hlutverk, t.d. sem þjóðhöfðingja í samskiptum við sína líka erlendis.

Við gefum ekki lítið fyrir álit fræðimanna, ég og hæstv. forsætisráðherra, en við vorum að útskýra hvernig þetta mál væri vaxið og að hluta til hefðu þegar (Forseti hringir.) verið gerðar á því breytingar sem eyddu mörgum þeim athugasemdum sem sjálfstæðismenn hafa hér hampað.