136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:32]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hæstv. fjármálaráðherra erum sammála um að völdin komi frá þjóðinni. Um það er enginn ágreiningur og það fólst ekkert annað í ræðu minni. Ég átta mig ekki á þeim hluta andsvars hæstv. fjármálaráðherra. Það sem ég var að tala um varðandi það að taka völdin frá Alþingi voru hin stjórnskipulegu völd. Ég hef skýrt fyrr í þessari umræðu hvaða völd eru falin Alþingi og hefði verið betra ef flutningsmaður frumvarpsins, hæstv. fjármálaráðherra, hefði þá verið viðstaddur. Eitt af því mikilvægasta er valdið til að koma fram með breytingar á stjórnlögum. Nú er meiningin að taka það vald frá þinginu.

Ég velti fyrir mér og hef komið með þau sjónarmið í umræðuna, hæstv. fjármálaráðherra, hvernig tvö þjóðþing eigi að vinna samtímis að stjórnarskrárbreytingum. Sömu spurningar hefur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson komið með í sínum ræðum. Með hvaða hætti á þetta að vera? Á annað þingið að vera rétthærra í þeim efnum en hitt? Eiga þau e.t.v. að vinna saman eða eiga þau að vera aðskilin? Miðað við frumvarpið eiga þau að vera aðskilin, sýnist mér. Er það líklegt til þess að skapa meiri festu í stjórnskipun landsins að velja tvö þing og fjölga þingmönnum úr 63 í 104?

Ég held því fram að þetta leiði til stjórnskipulegrar ringulreiðar. Það er meginatriðið í sambandi við andstöðu mína við þetta frumvarp, þ.e. ég tel að það muni leiða til stjórnskipulegrar ringulreiðar að ætla að fara fram með þetta fyrirbrigði sem kallað er stjórnlagaþing og ég get ekki séð að sé nokkur vitræn glóra á bak við þessar hugmyndir.