136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:36]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér útúrsnúningur úr orðum mínum að það sé verið að taka vald af Alþingi og tala um vald og þjóðina. Við erum alveg sammála, ég og hæstv. fjármálaráðherra, um að í lýðræðisríki sprettur valdið að sjálfsögðu frá þjóðinni, frá kjósendum. Það er enginn ágreiningur um það. Að sjálfsögðu er það þannig.

Spurningin er hins vegar með hvaða hætti við högum stjórnskipulagi okkar þannig að það leiði ekki til stjórnskipulegrar upplausnar eða ringulreiðar. Það er það sem ég er að fjalla um.

Það er verið að taka ákveðið stjórnskipulegt vald frá Alþingi. Það er gjörsamlega út í hött að reyna að snúa út úr þeim orðum. Það er stjórnskipulegt vald sem er verið að taka frá Alþingi með því að ætla að færa það til sérstaks stjórnlagaþings. Það er það sem ég bendi á.

Ég er hins vegar mjög ánægður með að hæstv. fjármálaráðherra skuli blanda sér í umræðuna. Á það hefur skort í umræðum um jafnmikilvægt mál og hér um ræðir, þ.e. breytingar á stjórnarskipunarlögum, að flutningsmenn frumvarpsins hafi gert grein fyrir skoðunum sínum. Ég hefði viljað að allir flutningsmenn frumvarpsins hefðu gert ítarlega grein fyrir skoðunum sínum og þeim sjónarmiðum sem að baki liggja.

Við erum t.d. með ákveðin eyðuákvæði í 3. gr., að ég tali ekki um 4. gr., þ.e. þetta dæmalausa stjórnlagaþing. Með hvaða hætti á t.d. að kjósa til þessa stjórnlagaþings? Það á að kjósa það einhvern tímann á árinu 2010, minnir mig að breytingin sé núna, og síðan er talað um fyrirvara og meiningar varðandi það með hvaða hætti kosningu skuli hagað. Það er ekkert talað um hvort það eigi að hafa jafnt atkvæðavægi fólksins í landinu, hvort þetta eigi að vera í einu kjördæmi eða skipt niður eftir landshlutum. Þetta er bara (Forseti hringir.) algjörlega ófrágengið og ófullburða.