136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:58]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta fyrir að gera breytingar á dagskrá fundanna í dag og taka fyrir önnur mál en frumvarp til breytinga á stjórnarskipunarlögum. Þar var um að ræða brýn mál sem þurftu að komast áfram og svo er reyndar um fleiri mál. Vonandi er að aukast skilningur hjá hæstv. forseta á því að það sé vænlegra fyrir þingið og þjóðina að við ræðum fleiri mál en bara stjórnarskrárfrumvarpið og reynum að koma fleiri málum sem snerta hagsmuni heimilanna og fyrirtækjanna áfram til að þau megi afgreiða. Fólk bíður eftir því að þau úrræði sem þar eru sjái dagsins ljós, ef svo má að orði komast. Sum þeirra frumvarpa sem hér um ræðir hafa í för með sér sparnað fyrir ríkissjóð og er þar af leiðandi brýnt að koma þeim frá og samþykkja þau. Ekki veitir af eins og alþjóð veit. Vonandi sjást þess merki að skilningur forseta á þessu sé orðinn ríkari en áður var í þessari viku. Við erum í dymbilvikunni og þó að áður hafi verið fundað í dymbilvikunni held ég að ég fari rétt með þegar ég segi að ekki hafi áður verið fundað áður á miðvikudegi fyrir skírdag.

Ég verð hins vegar líka að segja það, herra forseti, að mér finnst dapurlegt að vera að flytja ræðu um breytingar á íslensku stjórnarskránni við undirleik búsáhaldabyltingarinnar. Það gekk auðvitað mikið á í vetur þegar mótmælendur börðu búsáhöld til að mótmæla því að ríkisstjórnin sæti, heimtuðu að ríkisstjórnin segði af sér og að boðað yrði til kosninga. Hversu ósammála sem ég var þeim mótmælum verður maður að segja að það örlaði á skilningi á stöðunni. Það var mikið búið að ganga á í þjóðfélaginu og ekkert skrýtið þó að fólk væri ósátt og vildi breytingar þó að mér fyndust þær kannski ekki skynsamlegar á því augnabliki. Niðurstaðan varð sú sem við þekkjum. Núna virðist manni, herra forseti, að þeir sem mótmæla séu að mótmæla málfrelsi stjórnarandstöðunnar í þinginu og ég verð að segja að ég man varla eftir að hafa heyrt um slík mótmæli nokkurs staðar, að fólk safnaðist saman til að mótmæla stjórnarandstöðunni sem hefur það hlutverk að flytja mál sitt og hafa uppi andstæð sjónarmið við sjónarmið ríkisstjórnarinnar til að tryggja að um þau fari fram umræða. Það er beinlínis skylda stjórnarandstöðunnar að gera það. Það erum við nú að gera og svo sannarlega vegna þess að við trúum á það sem við erum að segja. Það er ekkert formsatriði að gera það.

Ég hef ekki lengsta þingreynslu eða þingsetu allra en allnokkra og hef upplifað að stjórnarandstaðan hafi tekið tímann sinn í að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við þingheim og virkilega þá tekið hlutverk sitt í stjórnarandstöðu alvarlega við að tryggja ítarlega umræðu en ég man alls ekki eftir að nokkru sinni hafi verið efnt til mótmæla vegna þess. Því finnst mér mjög undarlegt að sú skuli nú vera staðan og ég velti því aðeins fyrir mér af hvaða rótum slík mótmæli eru runnin. Mótmælendur nýta sinn rétt til að mótmæla. Það efast enginn um þann rétt — en til að mótmæla málfrelsi stjórnarandstöðunnar.

Ég vil líka mótmæla ummælum hv. þm. Atla Gíslasonar um að ræðumenn endurtaki sig. Ég kannast ekki við að ég hafi endurtekið mig þó að ég neiti því ekki að eitt og eitt orð hafi verið notað áður í fyrri ræðum. Orðgnóttin er ekki svo mikil að ég geti komist hjá því en hins vegar hef ég rakið á málefnalegan hátt þá þætti sem ég tel skipta máli án þess að um endurtekningar hafi verið að ræða. Mér hefur ekki enn þá tekist að komast yfir þau efnisatriði sem stjórnarskrárfrumvarpið gengur út á til að tæma umræðuefnið. Ég hef reyndar ekki haldið margar ræður. Ég held að ég hafi haldið þrjár ræður og það þykir sjálfsagt ekki mikið miðað við hæstvirta ráðherra í núverandi ríkisstjórn þegar þeir voru upp á sitt besta í stjórnarandstöðunni í umræðu um málin.

Ég var búinn að ræða aðeins í fyrri ræðu um sögu og uppruna stjórnlagaþinga, hvernig þau hafa komið til og aðallega þá fyrri stjórnlagaþing, á 18. og 19. öld. Ég var þar kominn sem ég hugðist fara aðeins yfir stjórnlagaþing á 20. öld. Þau voru svo sannarlega haldin þá líka. Það má finna um þau allmörg dæmi. Sum þeirra voru í kringum stríðslokin, að lokinni seinni heimsstyrjöld og þá í Þýskalandi. Er þýska stjórnarskráin frá 1949 afrakstur slíks stjórnlagaþings. Á það var kosið óbeint. Það var ekki kosið beint til þess eins og við erum að tala um í þessu frumvarpi hér.

Árið 1946 var haldið stjórnlagaþing á Nýfundnalandi og það hafði í för með sér umtalsverðar breytingar fyrir Nýfundnaland. Til þess var kjörið beinni kosningu. Sú tilhögun, herra forseti, er reyndar sjaldgæfari en sú að kosið sé óbeinni kosningu eða þá að valið sé á stjórnlagaþing á annan hátt en með beinum kosningum.

Nýjasta dæmið um stjórnlagaþing er frá Austurríki, þar var sett á fót stjórnlagaþing árið 2003. Það starfaði í tvö ár en stjórnarskráin þar var að stofni til frá 1920 og var sett í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar og þeirra breytinga sem urðu á keisaradæminu Austurríki/Ungverjalandi í lok styrjaldarinnar. Í Austurríki hafa tillögurnar sem komu fram enn ekki verið samþykktar á austurríska þinginu.

Það virðist líka vera algengara að haldin séu stjórnlagaþing í sambandsríkjum og þá er lögð mikil áhersla á það að öll ríki eða fylki eigi fulltrúa. Oft eru markmið stjórnlaganna að skilgreina mörk á milli valds fylkjanna og sambandsvaldsins. Eins og ég segi eru þessi dæmi sem ég nefndi um sambandsríki og það virðist algengara að þar séu haldin stjórnlagaþing.

Tími minn er nú úti (Forseti hringir.) en ég á eftir að fara betur, herra forseti, yfir hin tíðari stjórnlagaþing og leggja sérstaklega út af því (Forseti hringir.) hvernig valið er á stjórnlagaþingin í sambandsríkjum varðandi kosningar hér á landi.