136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:26]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan í fyrra andsvari mínu að ég kann ekki að útskýra þá umræðu sem fram fór í sérnefndinni eða þess vegna á milli manna. En ég veit ekki betur að því leyti sem ég hef heyrt ræður hér, ég hef heyrt þær mjög margar þó að ég hafi ekki heyrt þær allar, en að við sjálfstæðismenn höfum aftur og aftur lýst þessum vilja okkar. Og ég vil þá bara segja úr því að hann er núna loksins kominn til meðvitundar þeirra sem í stjórnarmeirihlutanum eru, eigum við þá ekki bara að hætta að karpa um það hvernig þetta var og af hverju við erum í þeirri stöðu sem við erum núna? Eigum við ekki bara að horfa fram á veginn og fresta 2. umr., setja málið í nefndina, semja um þær breytingar sem menn geta samið um. Ég fullyrði að það er fullur vilji hjá Sjálfstæðisflokknum varðandi 79. gr. sem er mikilvægasta greinin. Hinar tvær er vilji til að skoða með opnum huga. Stjórnlagaþingið verður erfiðasti hjallinn. Þetta er staða málsins.

Klukkan er að verða hálfátta og því var lofað að þingfundi yrði slitið þá. Við getum kannski leyst málið með því að fara ekkert formlega með málið heldur frestað 2. umr. og notað páskana (Gripið fram í: Já.) hver í sínu horni og saman til að leysa þetta mál og að upprisuhátíðinni lokinni gætum við komið hingað með málið leyst (Gripið fram í: Og upprisin.) og værum þar með líka búin að koma í sjónmál lokun þessa þings þannig að þeir fulltrúar sem (Forseti hringir.) eru að fara í kosningu geti farið að tala beint við kjósendur (Forseti hringir.) því þetta snýst nú alltaf um það að valdið kemur þaðan.