136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

gengi krónunnar.

[13:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrir fáeinum dögum ræddum við á þinginu og voru samþykkt lög til að styðja betur við þau gjaldeyrishöft sem eru í gildi á Íslandi. Við í Sjálfstæðisflokknum sátum hjá við þá atkvæðagreiðslu á þeirri forsendu að þeirri ríkisstjórn sem nú ræður för mistekst algerlega að fást við það verkefni að styrkja krónuna. Þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar sem féllu hér um mikilvægi þess að gera breytingar á Seðlabankanum, þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar um að ný ríkisstjórn mundi endurvinna traust og endurskapa traust á því sem þar var að gerast og í opinberum fjármálum heldur gengi krónunnar áfram að falla. Frá því að þessi ríkisstjórn tók við störfum hefur gengi krónunnar fallið um 16% síðan 1. febrúar, 16% fall á gjaldmiðlinum síðan 1. febrúar. Þetta er allur árangurinn. (Gripið fram í: Hvað féll …?) Þetta er nú allur árangurinn af starfi nýju ríkisstjórnarinnar við að endurvinna traust á efnahagsmálum, að vinna okkur út úr vandanum. Það stefnir í fleiri gjaldþrot (Gripið fram í: Þetta heitir að snúa vörn í sókn.) og það stefnir í að nú skelli að nýju verðbólgubylgja á okkur sem getur komið í veg fyrir það að Seðlabankinn geti lækkað vexti.

Hvað er þessi ríkisstjórn að gera til að hindra þessa atburðarás, að stöðva frekara fall krónunnar?