136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

sumarvinna námsmanna og Nýsköpunarsjóður.

[13:41]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki J. Jónssyni fyrir að vekja máls á þessu hér. Það er rétt að starfshópur, eins og ég greindi frá í þessari pontu fyrir einhverjum vikum, hefur verið að vinna að málum hvað varðar sumarstörf námsmanna og miðað við þær áætlanir og spár sem hafa verið gerðar er áætlað eða svartsýnustu spár segja að u.þ.b. 7 þúsund stúdentar séu mjög svartsýnir á að fá vinnu. Ef við reiknum atvinnuleysi stúdenta miðað við að það sé meira en meðalatvinnuleysi er miðað við að u.þ.b. 5 þúsund stúdentar gætu verið án vinnu.

Eins og hv. þingmönnum er kunnugt er auðvitað mjög hart í búi hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna eins og öðrum samfélagsstofnunum um þessar mundir. Sjóðurinn þurfti að taka á sig skerðingu á eigin fé í síðustu fjárlögum upp á milljarð en við viljum reyna að koma til móts við námsmenn og í morgun samþykkti ríkisstjórnin framlag upp á 650 millj. kr. til aukningar eigin fjár lánasjóðsins sem gerir það að verkum að sjóðurinn getur lánað út til 3–4 þúsund námsmanna. Þetta er auðvitað gert með fyrirvara um samþykki Alþingis en það verður líka að horfa á það að þessir námsmenn eiga rétt á atvinnuleysisbótum sem gætu numið allt að milljarði og upp undir 1,4 milljarða ef miðað er við að t.d. 5 þúsund námsmenn yrðu atvinnulausir. Um það bil 75% námsmanna eiga rétt á atvinnuleysisbótum þannig að þarna erum við í raun að taka ákvörðun um forgangsröðun hvort við viljum að námsmenn mæli götur á atvinnuleysisbótum eða hvort þeim sé beint í nám samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Það er auðvitað alveg ljóst að háskólarnir þurfa að fá framlög til að geta boðið upp á nám. Háskóli Íslands hefur t.d. gefið það upp í ljósi síns ástands að hann þurfi að fá framlög. Hluti af þessum aðgerðum miðar að því að háskólarnir geti þá boðið upp á nám fyrir þessa námsmenn.