136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

sumarvinna námsmanna og Nýsköpunarsjóður.

[13:44]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Að sjálfsögðu fögnum við öllum þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir til að koma til móts við vanda námsmanna en við hljótum líka að spyrja hvort nóg sé að gert í þessum efnum. Ég vil endurtaka spurningu mína til hæstv. ráðherra um það hvort ráðherrann hyggist beita sér fyrir auknum fjárframlögum til Nýsköpunarsjóðs námsmanna þannig að hægt sé að fjölga verkefnum til handa hugvitssömum námsmönnum sem vilja nýta hæfileika sína og koma hugmyndum sínum í framkvæmd, sérstaklega í ljósi þess að mörg þúsund námsmenn eiga það yfir höfði sér að geta ekki stundað nám í sumar og hafa heldur ekki atvinnu við hæfi og þurfa að fara á atvinnuleysisbætur. Það er visst ósamræmi á milli þess sem forsvarsmenn stúdenta við háskóla landsins hafa haldið fram, að 13 þúsund námsmenn telja að þeir eigi mjög litla möguleika á atvinnu í sumar, og þeim tölum sem hæstv. ráðherra bar á borð fyrir okkur. Við þurfum að fá það á hreint (Forseti hringir.) hvort það séu í raun og veru 13 þúsund háskólanemar sem munu eiga í erfiðleikum í sumar eða um 7 þúsund eins og hæstv. ráðherra nefndi.