136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

hvalveiðar.

[13:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Öllu má nú nafn gefa. Ég mundi ekki kalla það vinnuferli sem var í gangi í þessum málum af hálfu forvera míns. Satt best að segja var með ólíkindum þegar farið var að skoða það mál hvernig umbúnaðurinn var hvað varðar stjórnsýslureglur og stjórnsýsluframkvæmd, lagastoðina sem þetta byggði á og margt fleira.

Sú vinna hefur hins vegar nú öll verið sett í gang og vissar afurðir hennar litið dagsins ljós í formi þess að það er búið að breyta aðkomunni að úthlutun leyfa, tryggja þar jafnræði, fleiri aðilum gefst kostur á að sækja um leyfi ef þeir fullnægja kröfum og annað í þeim dúr sem er í samræmi við nútímaviðhorf til stjórnsýslu og jafnræðis í atvinnunýtingu af þessu tagi. Frumvarp um hvali liggur á heimasíðu ráðuneytisins. Það er afrakstur starfshóps sem ég skipaði. Ég ákvað að hafa ferlið allt saman opið og gagnsætt, bæði hvað varðar hvalaskoðunarsvæði og þessi drög að frumvarpi. Nú geta menn komið sjónarmiðum sínum að og rætt þau en að öðru leyti bíður það mál að sjálfsögðu næsta þings og nýrrar ríkisstjórnar. Það stóð aldrei til að reyna að afgreiða ný lög um þessi mál fyrr en á næsta þingi.

Mönnum mun gefast færi á að skoða það, tjá sig um það og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Það eina sem að mínu mati er óumflýjanlegt að afgreiða fyrr en síðar vegna vorsins og sumarsins sem í hönd fer er sú tilraun að sætta andstæð sjónarmið og andstæða hagsmuni milli hvalveiða og hvalaskoðunar sem eru fólgin í því að taka frá ákveðin hvalafriðunar- eða hvalaskoðunarsvæði. Ég reikna með að afgreiða það mál en láta frumvarpið og frekari meðferð málanna bíða næsta þings að öðru leyti.