136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

hvalveiðar.

[13:52]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Maður veltir stundum fyrir sér hvort hv. þm. Jón Gunnarsson vilji helst að engin önnur atvinnustarfsemi sé stunduð á Íslandi en hvalveiðar. Það er fleira í þessu máli en það eitt. Ætli það skipti ekki máli að reyna að vanda umbúnað um þessi mál og hafa eftir því sem kostur er sæmilegan frið milli atvinnugreina, milli mismunandi nýtingarforma, þegar hlutir af þessu tagi eiga í hlut.

Ég hef ekki tekið neina endanlega afstöðu til frumvarpsins. Það er unnið af þessum starfshópi. Það er lagt upp á ábyrgð hans. Þeir menn sem starfshópinn skipa bera ábyrgð á innihaldi frumvarpsins en ég get hiklaust sagt að í öllum aðalatriðum er fólgin stórfelld framför í þessu frumvarpi frá gildandi lögum frá 1949 um starfsleyfi hvalstöðva sem eru náttúrlega á engan hátt í samræmi við nútímastjórnsýslu og -hugsun í þessum efnum í dag.

En það bíður, eins og ég sagði, betri tíma að takast á við það hér. Málið kemur að sjálfsögðu til Alþingis þegar frumvarpið verður (Forseti hringir.) flutt og mönnum gefst færi á að gera á því breytingar eða ræða það eins og þeir vilja.