136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

hagræðing í heilbrigðisþjónustu.

[13:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er komið undir kjósendum þessa lands hvert framhald verður á því ríkisstjórnarsamstarfi sem stofnað hefur verið til. Það liggur í loftinu, finnst mörgum, að þarna á verði framhald enda komnar yfirlýsingar frá báðum stjórnarflokkunum um að hugur þeirra standi til slíks en við hljótum að bíða úrslita kosninganna, að sjálfsögðu, hvað þetta snertir.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að vanda til verka þegar fjárlög næsta árs eru annars vegar. Fyrir dyrum stendur umtalsverður niðurskurður í ríkisútgjöldum. Það er jafnframt ljóst að við þann niðurskurð þurfum við að forgangsraða og þá þannig að þeirri þjónustu sem viðkvæmust er verði hlíft. Við höfum ráðist í umtalsverðan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu, sem nemur 6,7 milljörðum kr. á þessu ári. Þetta hefur kallað á mikið samstarf innan heilbrigðisþjónustunnar og það er gott til þess að hugsa hve vel starfsfólk almennt og stjórnendur heilbrigðisstofnana hafa tekið í þau mál og lagst saman á árarnar. Það þarf að verða framhald á þeirri samvinnu.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að hugsa fram í tímann og hún nefnir sérstaklega tilvísanakerfi sem gæti orðið til þess að koma böndum á ríkisútgjöldin í heilbrigðisþjónustunni. Við megum hins vegar ekki flana þar að neinu. Það á ekki að taka nein (Forseti hringir.) heljarstökk í heilbrigðiskerfinu. Við þurfum að vera (Forseti hringir.) búin að undirbúa jarðveginn og framar öllu öðru (Forseti hringir.) að sjá til þess að um kerfisbreytingar (Forseti hringir.) ríki víðtæk sátt í heilbrigðiskerfinu.