136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

hagræðing í heilbrigðisþjónustu.

[13:58]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt að það veltur á kjósendum hvernig kosningarnar fara. Ég verð að segja eins og er að staðan sem við horfum framan í núna hræðir mig að vissu leyti. Það er vegna þess að vinstri flokkarnir mælast með það mikið fylgi að hér gæti orðið hrein vinstri stjórn að afloknum kosningum. Og vinstri sporin hræða. (Gripið fram í: Nú?)

Ég held að það væri skynsamlegt að meiri jarðtenging væri í þeirri ríkisstjórn en nú er af því að það hefur valdið okkur framsóknarmönnum miklum vonbrigðum hvað ríkisstjórnin hefur lítið komið til móts við fyrirtækin og heimilin í landinu. Þetta eru smáskammtalækningar sem ríkisstjórnin hefur stundað og sú tillaga sem við höfum komið fram með í okkar efnahagstillögum um 20% leiðréttingu á skuldum bæði fyrirtækja og heimila er róttæk tillaga sem verður að fara í. Sporin hræða.

Virðulegur forseti. Ég fagna því (Forseti hringir.) að hæstv. heilbrigðisráðherra heldur því enn þá (Forseti hringir.) opnu að fara í tilvísanakerfi að danskri (Forseti hringir.) fyrirmynd af því að það er alveg ljóst að það verður að hagræða. Það verður að (Forseti hringir.) koma efnahagslífinu af stað og það verður líka að hagræða.